Hallveig bloggar: teriyaki gleður hjartað!

Lax er dásamlegt hráefni og ein af uppáhalds hanteringunum mínum er þegar hann er matreiddur á japanskan máta, eða í teriyaki. Teriyaki er grillsósa þar sem uppistaðan er soya og púðursykur, bragðbætt með engifer og hvítlauk og það er mjög auðvelt er að útbúa sósuna sjálfur en mér finnst oft koma eitthvað sérstaklega gott bragð af tilbúinni teriyaki sósu, kannski af því að hún er búin að brjóta sig nógu lengi. Allavega kaupi ég hana yfirleitt tilbúna, en þá frá góðum merkjum s.s. Kikkoman eða því sem ég notaði núna, Enso.

Með laxinum bar ég fram veltisteikt grænmeti, soðin hrísgrjón og auka teriyaki til að bragðbæta grjónin.

Laxinn, magnið dugir fyrir 3 (eða 4 miðað við 2 börn):

 • 900 gr laxaflak
 • 4 msk teriyaki sósa
 • 1 msk hlynsíróp
 • 1 tsk sesamolía
 • 1 tsk ólífuolía
 • maldonsalt
 • nýmalaður pipar
 • slatti af sesamfræjum

Byrjið að huga að fiskinum allavega klukkutíma fyrir matreiðslu, helst aðeins fyrr. Makið fiskinn með ólífuolíunni, bæði roðhliðina og þá efri, saltið og piprið. Blandið teriyaki sósunni, sírópinu og sesamolíunni saman og marínerið fiskinn vel í blöndunni. Best er að ausa auka maríneringu yfir hann af og til á meðan.

Stráið sesamfræjunum yfir rétt fyrir eldun, grillið svo fiskinn á riffluðum álbakka á meðalheitu grilli í 25 mínútur. Penslið fiskinn með afgangs marineringunni nokkrum sinnum á meðan á elduninni stendur.

Veltisteikt grænmeti:

 • kúrbítur
 • gul paprika
 • rauð paprika
 • nokkrir vorlaukar, snyrtir
 • sletta af teriyaki, ca 1 tsk
 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða marið
 • msk ólífuolía
 • maldonsalt

Skerið grænmetið í hæfilega strimla, veltið því upp úr olíu, teriyaki, hvítlauk og salti. Steikið grænmetið á snarpheitri pönnu (helst vok) í 10 mínútur eða þar til kúrbíturinn er mjúkur.

Berið svo laxinn og grænmetið fram með grjónum, soðnum eftir leiðbeiningum, og auka teriyaki sósu til að skerpa á bragðinu.

Með þessu drukkum við ljómandi nýsjálenskt Sauvignion Blanc, Matua frá 2012 sem er nýleg viðbót í áfengisverslun allra landsmanna. Fínasta miðvikudags-vín!

Deila.