Kjötbollur Ottolenghis

Yotan Ottolenghi er þekktastur fyrir að töfra fram ótrúlega grænmetisrétti líkt og á veitingastað sínum Nopi í London. Hann er hins vegar ekki síður snillingur þegar kemur að öðru hráefni og þessar kjötbollur byggjum við á grunni uppskriftar sem að hann birti á sínum tíma í dálki sínum í breska blaðinu The Guardian. Við hnikuðum aðeins til og notuðum m.a. kartöflur í staðinn fyrir seljurót Líkt og flestar aðrar uppskriftir Ottolenghis eru Mið-Austurlandahárifin ríkjandi.

Kjötbollurnar

 • 500 g nautahakk
 • 150 g brauðmylsna/rasp
 • 1 laukur
 • 1 egg
 • 1 tsk Allspice
 • 1 lúka fínsöxuð steinselja (flatlaufa)
 • salt og pipar

Við gerðum raspið með því að hita fjórar brauðsneiðar í ofni þar til að þær eru orðnar mjög stökkar. Maukið í rasp í matvinnsluvél, Fínsaxið laukinn. Pískið egginn. Fínsaxið steinseljuna. Blandið öllu saman og mótið kjötbollur.

Annað sem þarf:

 • 1 dós grísk jógúrt
 • 400 g kartöflur/sellerírót
 • 5 dl kjúklingasoð (vatn og góður kraftur ef því eigið ekki ekta soð)
 • 4-5 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • 1 lúka fínt söxuð steinselja
 • 1,5 tsk fennel
 • 1/2 tsk kanil
 • 1/2 tsk turmerik
 • 1/2 tsk cummin
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • olía
 • salt og pipar

Í upprunalegu uppskriftinni notar Ottolenghi sellerírót. Það var hins vegar engin sellerírót til þegar að við fórum á stúfana í stórmarkaðinn og því var ákveðið að prufa þetta með nýjum, íslenskum kartöflum, sem var bara hin fínasta hugmynd þegar upp var staðið. Hvort sem að þið notið kartöflur eða sellerírót þá skerið þið þær í bita.

Hitið olíu á pönnu og brúnið kjötbollurnar í nokkrar mínútur. Takið af pönnunni og geymið. Bætið olíu út á pönnuna ef þarf. Setjið kartöflubitana/sellerírótarbitana. Bætið hvítlauk og kryddum (fennel, cummin, turmerik, reyktri papriku, kanil) saman við og steikið í 3-4 mínútur. Setjið þá kjötbollurnar aftur á pönnuna (ásamt safa sem kann að hafa lekið af þeim), hellið kjúklingasoðinu út á og sítrónusafanum. Leyfið suðu að koma upp, lækkið þá hitann og látið malla á mjög vægum hita undir loki í um hálftíma. Takið þá lokið af, hrærið helmingnum af jógúrtinu saman við. Við létum þetta síðan malla áfram í 1-2 mínútur.

Sáldrið steinseljunni yfir og berið fram ásamt afganginum af gríska jógúrtinu.

Þið getið skoðað allar kjötbolluuppskriftirnar með því að smella hér. 

Deila.