Steingrímur bloggar: Einstakur Loðvík

Það er alltaf skemmtileg og spennandi upplifun að smakka eitthvað nýtt, ekki síst ef um er að ræða eitthvað sem flokkast sem eitt það allra besta i sínum flokki. Koníakið Louis XIII eða Loðvík þrettándi hefur ákveðna sérstöðu í hugum koníaksunnenda enda allt í senn sögufrægt, sjaldgæft og rándýrt. Slíkar flöskur eru ekki opnaðar á hverjum degi – enda hleypur flaskan á hundruðum þúsunda –  og það var því all nokkur tilhlökkun í opnum sem var samankominn á Vínbarnum um helgina til að taka tappann úr einni. Eigandinn hafði raunar sýnt einstaka þolinmæði en honum áskotnaðist þessi flaska fyrir um fimmtán árum. Þrátt fyrir gífurlegan þrýsting frá félögum sat tappinn alltaf sem fastast en að lokum var einfaldlega komið að því.

Louis XIII var fyrst sett á markað á nítjándu öld af Rémy Martin og hefur alla tíð haft mikla sérstöðu. Ekki er gefið upp hve mikið er framleitt, en það eru ekki margar flöskur enda blandan einstök, alls eru 1200 mismunandi koníök notuð í hana, það yngsta um 40 ára og það elsta um 100 ára. Í hverjum sopa er því að finna þverskurð af framleiðslu síðustu aldar. Flaskan sem koníakið er tappað á er byggt á fornri flösku sem fannst á vígvellinum í Jarnac þar sem háð var mikil orrusta á miðöldum. Það er kristalframleiðandinn Baccarat sem handblæs flöskurnar sem hafa verið eins frá því á fjórða áratug síðustu aldar.

Þetta er goðsagnakennt koníak og spennan var því töluverð þegar loks kom að því að bragða á Lúlla. Og já, þetta er einstakt koníak, margslungið, mikið, fínlegt, fágað og fullkomið. Nef þess er flókið og síbreytilegt, þarna eru rúsínur og sveskjur í byrjun, lika ristaðar heslihnetur og blóm, eikin auðvitað áberandi, sæt, mjúk og feit, í munni skoppar það um eins og skopparabolti – eða raketa – öflugt, mikið en engu að síður silkimjúkt og lengdin er gífurleg. Það lifir lengi í munni og angan þess situr eftir í glasinu löngu eftir að síðasti dropinn er farinn.

Deila.