Haukur Leifsson bloggar: Teresa frá Borg

Gríðarleg fjölgun hefur orðið á bjórtegundum á Ísland unfanfarin ár og upp er komin sú hefð að flest brugghúsin senda frá sér árstíðabundna bjóra. Við það skapast viss tilhlökkun og sér í lagi þegar brugghús breyta út af vananum og koma sífellt með eitthvað nýtt.

Ágætis hefð hefur myndast í kringum Oktoberfest bjóra hér á landi, og það er mjög skemmtilegt að íslensk brugghús sjá sér færi að setja á markað haustbjóra. Það er ekki algild regla að haustbjórar eigi að vera Oktoberfest bjórar, en Oktoberfest bjórar eru flestir af tegundinni marzen, sem er lagerbjór. Hefðin á bakvið hann er sú að hann er bruggaður að vori til og geymdur yfir sumarið. Oftast áfengismeiri en aðrir lagerbjórar og meira humlaður. Í Bandaríkjunum hefur hinsvegar skapst sú hefð að búa til graskers bjóra. Þá er það oftast yfirgerjað öl og í mörgum tilfellum ansi stórt og mikið.

Haustbjór Borg manna er meira skyldur hinum Evrópska lagerbjór. Lagerbjór er algengasti bjórstíll heims og oftast er það eitthvað sem við bjórnördarnir höfum lítinn áhuga á. Hinsvegar er afar skemmtilegt þegar lager hugtakið er teygt, og bjórinn bragðmeiri og skemmtilegri en við eigum að venjast. Teresa er á þann veg, lager hugtakið er teygt og uppi stendur bragðmikill og kröftugur lager bjór. Hún er skemmtilegra humluð, hér eru miklir hausttónar ef svo skal kalla, grösugur og talsvert krydd í nefi, með örlitlum keim af myntu. Eftirbragðið er biturt en þó ekki um of. Undirritaður er á því að hér er gríðarlega góður matarbjór, eins og nafnið bendir e.t.v til., India Red Lager. India orðið er tilvísun í humla og Red lýsir litnum ansi vel, en bjórinn er koparrauður á lit. Humlarnir eru skemmtilegir og ættu að virka vel með sterkum mat, eins og tælenskum og indverskum, enda algengt að lagerbjór sé hafður með þess konar mat í Asíu.

Upplagið er takmarkað og fæst þessi bjór aðeins í skamman tíma. Enn ein rósin í hnappagat Borgar.

Deila.