Haukur Leifsson bloggar: Skaði frá Ölvisholti

Haustbjórarnir halda áfram að koma og nú er komið að Skaða frá Ölvisholti. Skaði hefur mikla sérstöðu í bjórheiminum hér á landi. Hann er fyrsti „Saison“ bjórinn sem kemur á markað en mikið hefur farið fyrir þessum belgíska bjórstíl á undanförnum árum.

Æði er runnið á bandarísk örbrugghús sem keppastnú við að þróa þennan stíl sem til skamms tíma var við það að deyja út.

Saison er „nördabjór“ eins og hann gerist bestur. Hér er um yfirgerjað öl að ræða sem upprunalega var sumarbjór fyrir vinnufólk í Belgíu. Hann var bruggaður að vetri til og geymdur fram á sumarið og borinn fram á heitustu sumarmánuðunum. Ætlunin var að gera öl sem væri frekar sterkt og myndi þola vel geymslu, en væri jafnframt afar svalandi.

Bjórstíllinn á rætur að rekja til Vallóníu (frönskumælandi hluta Belgíu) og bjórinn var mismunandi eftir bóndabæjum. Einnig var hann bruggaður í Frakklandi en þá betur þekktur sem „Biere de garde“ sem mætti þýða sem „bjór til geymslu“. Sú útgáfa er örlítil frábrugðin hinum belgíska Saison en hugmyndafræðin er á svipaða leið

Uppskriftir voru mismunandi og hráefnið alltaf staðbundið við bæinn þar sem bjórinn var bruggaður. Saison er oftast ríkulega kryddaður og gerið skapar svo jafnvægi í bjórnum. Gerið var ræktað á þann veg að oft var það endurnýtt, og þróaðist á þá leið að það var mjög mismunandi eftir bóndabæjum.

Gerið er í aðalhlutverki í öllum Saison bjórum og nýtur Ölvisholt gers frá Thiriez brugghúsinu í Frakklandi sem gerir þetta að ósviknum sveitabjór, sérstaklega þar sem Ölvisholt er sveitabær. Ölvisholt bætir einnig við íslenskri ætihvönn og rúg, sem gefur bjórnum skemmtilegan kryddkeim, en rúgur hefur verið afar vinsælt hráefni í árstíðabundnum bjórum.

Skaði er dökk appelsínugulur að lit, mjög gruggugur með fallegan haus. Hann er mikill í nefi og lyktin gefur til kynna hversu afskaplega flókinn bjórinn er. Miklir kryddtónar sem samanstanda af rúg, pipar og keim af appelsínuberki. Einnig er hægt að finna lykt sem minnir mann helst á rykugt háaloft eða hlöðuloft. Á tungu er hann þurr, kryddkeimurinn kemur vel í ljós og mikið jafnvægi er að finna á milli hráefna í bjórnum. Það er örlítil estra og jurtakeimur. Svo er skemmtilega þurr ending á tungu. Hann er vel svalandi miðað við stærð en hann er 7,5% í áfengisstyrk.

Þetta er flókinn bjór og undirritaður getur vel ímyndað sér að hann muni þola geymslu og þroskast vel. Hér er um afar vel heppnaðan Saison að ræða, og stenst hann fyllilega alþjóðlegan samanburð og vel það. Undirritaður er jafn vel á þeirri skoðun að hér sé á ferðinni einn besti bjór sem bruggaður hefur verið á Íslandi.

Deila.