Guðrún Jenný bloggar: Fetaosta Focaccia

Mér þykir óhemju gaman að baka brauð og það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað þetta er miklu minna mál en maður heldur þegar uppskriftin er lesin.   Brauð í stað kartaflna eða hrísgrjóna með mat finnst mér alltaf góð hugmynd og ef ég mætti ráða þá myndi ég alltaf hafa brauð með mat.

Hér er uppskrift af focaccia brauði með fetaosti.  Hugmyndin er komin frá vinnufélaga en grunnurinn að brauðinu er frá Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Agli Hrafnssyni og bók þeirra Góður matur – gott líf.  Snilldarbók og enn og aftur ábending til ykkar sem eigið hana ekki – Kaupið hana!

Hér nota ég afganginn af fetaosti úr olíu.  Mér finnst osturinn oft verða svolítið klesstur neðst í krukkunni og svo er alltaf haugur af olíu eftir þegar ég er búin að veiða feitustu ostbitana upp úr.  Þá er upplagt að nota afganginn í svona brauð.

  • 500 g hveiti – prótínríkt
  • 320 ml volgt vatn
  • Rúmlega 1 msk þurrger
  • ½ msk salt
  • 30 ml ólífuolía

Ofan á brauðið og í formið:

  • Ca ¼ úr fetaostskrukku með olíu
  • Maldon salt

Byrjið á því að velgja vatnið og leysa gerið upp.  Blandið saman hveiti, salti, ólífuolíu og gerblöndunni.  Hnoðið vel, hvort sem þið viljið í höndum eða í hrærivél.  Bætið við vatni eða hveiti eftir þörfum – allt eftir því hvernig deigið er.

010

Takið nú eldfast fat og setjið smávegis af olíunni sem er á ostinum í botninn á fatinu og dreifið úr.  Takið deigið og setjið það í fatið, teygið deigið út í öll horn.  Breiðið nú olíuborna eldhúsfilmu yfir deigið og látið hefast í ca tæplega klst.

Þegar deigið er búið að hefast þá er filman tekin af og puttunum potað í deigið þannig að það myndist holur.  Takið nú fetaostinn og dreifið honum ásamt olíunni yfir brauðdeigið.  Mér finnst gott að setja Maldon salt yfir deigið líka.

Bakað í ofni við 230°C í ca 15-20 mín.

Deila.