Hægelduð pólsk önd með eplafyllingu

Pólska eldhúsið býr yfir mörgum leyndarmálum sem að við Íslendingar eigum eftir að uppgötva. Þetta er klassísk pólsk uppskrift að önd fylltri með eplum sem eru hægeldaðar ásamt kartöflum. Á pólsku heitir rétturinn Kaczka Pieczona z Jabłkami og hugmyndin kemur úr bókinni „Rose Petal Jam: Recipes and stories from a summer in Poland“ eftir þau Beata Zatorska og Simon Target.. Það er hægt að fá frosnar ali endur í flestum stórmörkuðum, t.d. franskar Barbary-endur. Uppskriftin er fyrir 6-8 og auðvitað er hægt að nota eina önd og helminga þá magnið af öðru.  

  • 2 endur
  • 2 græn Granny Smith epli
  • 3 msk af fersku söxuðu marjoram (eða óreganó)
  • 3-4 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 tsk kúmin
  • 1,2 kg kartöflur
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 240 gráður.

Skerið eplin í bita og notið sem fyllingu í endurnar.

Blandið saman pressuðum hvítlauk, salti, pipar og marjoran. Nuddið kryddblöndunni á endurnar og látið þær standa í um 45 mínútur.

Setjið endurnar í stórt bökunarfat/ofnskúffu og eldið í ofninum í tíu mínútur. Lækkið þá hitann í 160 gráður og eldið áfram í eina  klukkustund. Ausið reglulega soðinu sem kemur úr öndunum yfir þær. Það getur líka verið gott að stinga nokkrum sinnum í þær með gaffli til að leyfa safanum að leka úr.

Þegar klukkustundin á lægri hita er liðin er kominn tími á að bæta kartöflunum við.hægelduð önd

 

Skerið kartöflurnar í tvennt eða fernt eftir stærð. Ef þið notið nýjar íslenskar kartöflur er alveg óþarfi að skræla, bara skola þær vel á undan. Saltið kartöflurnar og setjið í fatið með öndunum . Ausið vel yfir af soði og sáldið kúmen yfir. Eldið í um klukkustund eða þar til kartöflurnar eru fulleldaðar.

 

Meðlæti getur verið margvíslegt. TIl dæmis rauðrófusalat og gúrkusalat.

Rauðrófusalat

Bakið 5  rauðrófur í ofni í álpappír,  viðca. 200 gr. kælið, flysjið og rífið á grófasta rifjárni. Rífið niður eitt grænt (súrt) epli á sama grófleika, smakkið til með smátt rifinni piparrót (líka fínt að nota piparrótarmauk, fæst orðið víða). Svo er hrært út í 1/4 bolla af sýrðum rjóma (60 ml), safa úr 1/2 sítrónu; smá salt og pipar.

Gúrkusalat

Agúrkur flysjaðar og sneiddar þunnt (best með ostaskera) og sett yfir þær vinagrette úr 1 tsk sykur, 1 tsk dill, 2 tsk hvítvínsedik, og einn ísmoli) + salt og pipar.

Þá er gott graskersmauk tilvalið með. Smellið hér til að sjá uppskrift.

Með öndinni mælum við með góðu frönsku rauðvíni. Bordeaux-vín eru til að mynda unaðsleg með önd. Chateau Tour Pibran frá Pauillac er dæmi um vín sem nýtur sín vel með önd.

 

Fleiri uppskriftir með önd og andarbringum má svo finna með því að smella hér. 

Deila.