Arndís Ósk bloggar:Grjónagrautur í ofni – jól allar helgar!

Ég heyrði góða vinkonu mína tala um reynslu sína af því að baka grjónagraut í ofni eftir uppskrift sem hún fann aftan á Tilda hrísgrjónapakka og varð strax mjög upprifin yfir því.  Ég sýð nefnilega bara hrísgrjón og mjólk saman einu sinni á ári, en það er á aðfangadagsmorgun fyrir Ris a la mande.  Ástæður þess að ég geri þetta bara einu sinni á ári eru að þetta getur ekki verið neitt sérstaklega grennandi að gúffa í sig mjólk og hrísgrjónum (og það er alveg örugglega, pottþétt stemmandi….) og svo nenni ég ekki að standa yfir pottinum og passa að grauturinn brenni ekki í botninn.  En græðgin hefur þessa dagana yfirhöndina.  Þannig að lagðist í smá stúdíu, ég fann mjög fína uppskrift í bókinni „Eldað og bakað í ofninum heima“ og möndlaði mína eigin úr henni og eftir frásögn vinkonu minnar. Og nú er þetta eldað iðulega kl. 14 á laugardögum þegar mann er farið að hungra eftir brunch beikonið.  Það getur verið að lýðurinn heima hjá Gunnu systur tryllist þegar hún bakar Apabrauð með kanil, en lýðurinn á þessum bæ tryllist yfir grjónagraut í ofni.

  • 200 gr. grautargrjón, lögð í bleyti í ca. 10-15 mínútur – það er á dagskrá hjá mér að læða ¼ af brúnum grjónum í þetta, það er örugglega bara djúsí og ætti ekki að hafa áhrif á uppskrift eða eldunaraðferð
  • 1 l. blá mjólk
  • 1-2 dl. léttmjólk
  • 2 msk. sykur
  • 1-2 tsk. hunang
  • 2 kanilstangir
  • smjörklípa

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gr.  Náið ykkur í djúpt eldfast mót, ég á hjartalaga mót frá Le Creuset sem er fullkomið fyrir þetta en það er mikilvægt að nota skál eða form í hærri kantinum þar sem mjólkin rís þegar hún sýður og ekki viljið þið láta flæða út um allan ofn með tilheyrandi reykskynjaralátum.

Sigtið og skolið hrísgrjón og blandið öllum hráefnum saman.  Setjið í ofn og hrærið í af og til.  Þið sjáið að mjólkin rís þegar þetta er orðið vel heitt og getur farið að brúnast svolítið og það þarf að slá það niður þannig að þetta er ekki svona réttur sem hægt er að láta óáreittan í ofninum.  Ég er með þetta í ofni í ca. 30-40 mínútur en ég mæli með að þið tékkið hvort að grjónin séu orðin mjúk þegar grauturinn er farinn að þykkjast.  Grauturinn þykkist mikið þannig að það er bara gott að leyfa honum ekki að verða hnausþykkum í ofninum.  Betra er að taka hann út þegar mjólkin er enn svolítið fljótandi og leyfa honum að þykkjast á borðinu þegar hann kólnar í rétt hitastig fyrir átu, þ.e. ef þið getið hamið ykkur.

Ég hef líka prófað að gera „indverska útgáfu“ (sem er eiginlega svolítið svindl því þeir gera svona graut með þykkri jógúrt en sjaldnast mjólk) en hún fólst í að setja 8-10 marðar grænar kardimommur og 1 negulnagla í stað kanilstanga.  Það var líka sjúklega gott.

Sonurinn heimtar af fá að setja örlítið meira af kanilsykri ofan á en ég borða þetta með rabbbara og hindberja compote.  Þetta compote er sultuafbrigði þar sem ég sýð saman jöfnum hlutföllum af hindberjum og rabbarbara og vatnsskvettu án þess að bæta sykri við í ca. 5 mínútur úr  Þetta geymist í ísskáp alveg von úr viti þannig ég fatta eiginlega ekki til hvers fólk er að vesenast með gelatin og sykur í sultugerð.  Ég nota þetta líka út á múslí og Ab-mjólk og ef mig hungrar í sætu með ristuðu brauði og osti þannig að það er gott að eiga krukku af þessu í ísskápnum.

Deila.