Guðrún Jenný bloggar: Sunnudagskjúklingur með „sveita“kartöflumús

Um daginn kallaði ég á Arndísi systur og hennar fjölskyldu í mat.  Þetta var nú á venjulegum fimmtudegi og í raun hefði átt að vera fiskur (skv. planinu) en það þýðir lítið að bjóða Arndísi upp á fisk og þess vegna skellti ég tveimur kjúklingum í ofninn.  Gríðarlega þægilegt að elda svona því að ofninn sér um alla vinnuna.  Í raun er þetta nú hálfgerður sunnudagsmatur, svona týpískt það sem Bretinn myndi kalla Sunday Roast.  Með kjúklingnum hafði ég „sveita“ kartöflumús, einfalda svepparjómasósu, grænmeti, salat og mjólkursýrt grænmeti frá Móður Jörð (fæst m.a. í Frú Laugu).  Þetta grænmeti er algjört snilld og ég vara ykkur við, ákaflega ávanabindandi.

Sunnudagskjúklingur

Heill kjúklingur (ég set yfirleitt tvo í ofninn til að eiga afgang og mann munar ekkert um að steikja tvo á annað borð)

  • 1 sítróna
  • Salt og pipar
  • ólífuolía
  • 2 laukar – helmingaðir
  • 2 gulrætur – skornar í grófa bita
  • 6 hvítlauksrif – ég skar heilan hvítlauk í tvennt
  • hvítvínslögg

Hitið ofninn í 200° C.

Byrjið á því að þerra kjúklinginn vel að utan (mér finnst hann brúnast betur og hamurinn verður stökkari fyrir vikið).  Nuddið ólífuolíunni vel inn í kjúklinginn bæði að framan og aftan og saltið og piprið haminn.  Rífið sítrónubörk yfir kjúklinginn og setjið timian á hann líka.  Takið nú sítrónuna og skerið raufar í hana hér og þar og stingið henni svo upp í kjúklinginn.   Kjúklingurinn er svo settur í steikarfat og steiktur í ofninum í ca 40 mín.

007

 

Eftir 40 mínútur takið þá fatið út úr ofninum og lyftið kjúllanum upp.  Nú er kominn tími til að setja grænmetið (laukur, hvítlaukur og gulrætur) í fatið ásamt smá hvítvínslögg.  Kjúklingurinn fer svo ofan á og herlegheitin öll inn í ofn í ca 45 mín til viðbótar.  Passið að fullsteikja kjúklinginn (þannig að kjötið nái 75°C hita).

„Sveita“ kartöflumús

Þessi er afar einföld.  Sjóðið kartöflur í því magni sem þið þurfið.  Mín reynsla er sú að ég þarf alltaf meira en ef ég ber kartöflurnar fram soðnar.  Þegar kartöflurnar eru soðnar þá nota ég tréstaut til að merja þær í pottinum – ég vil hafa þessa mús svolítið grófa og þess vegna nota ég tréstautinn.  Ég set fullt af smjöri út í og salt og pipar.  Síðast en ekki síst þá hita ég smá mjólkulögg til að þynna músina aðeins.  Smakkið til og bætið smjöri , salti eða pipar ef þarf.

 

 

Deila.