Jólaönd danska sendiherrans

Fyllt önd er hinn sígildi jólamatur Dana og yfirleitt samanstendur fyllingin af sveskjum og eplum. Fyrir mörgum árum rákumst við á viðtal við þáverandi sendiherrahjón Dana á Íslandi þar sem þau gáfu uppskrift að önd fylltri með kartöflum. Við fundum þessa gömlu úrklippu og ákváðum að reyna hana en bættum raunar sveskjunum við.

  • 1 önd
  • 4 bökunarkartöflur
  • 1 poki sveskjur
  • 2 dl hvítvín
  • sjávarsalt og nýmulinn pipar

Við notum bökunarkartöflur þar sem að það er fljótlegra að skræla þær og skera niður en minni kartöflur. Flysjið og skerið í litla teninga.

Skolið öndina og þerrið vel. Skerið smá fitubita af henni við opið og hitið á pönnu. Steikið kartöfluteningana í andarfitunni í u.þ.b. fimm mínútur. Saltið og piprið mjög vel. Best er að mylja piparkorn í morteli. Fyllið öndina af kartöfluteningum.

Hellið hvítvíninu í stóran steikarpott og setjið sveskjurnar í botninn. Setjið öndina ofan á og látið bringuhliðina snúa niður.

Hitið ofninn í 200 gráður. Setjið pottinn inn í ofn. Eftir 20 mínútur er öndinni snúið við í pottinum þannig að bringurnar snúi upp og hitinn lækkaður í 160 gráður. Eldið áfram í um 2 klukkustundir.

Berið fram með kartöflunum og sveskjunum. Soðið undir má nota sem grunn í góða sósu með.

Uppskriftir að klassískri danskri jólaönd má finna hér.

 

Deila.