Kjúklingur með kryddraspi og chilismjöri

Krydd og kryddjurtir gera þennan kjúkling bragðmikinn og spennandi og kryddraspið fulllkomnar samsetninguna.

Kjúklingurinn

 • 1 kjúklingur, heill
 • 3 msk Dijon-sinnep
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 1 msk salvía
 • 1 væn tsk chili-duft
 • 1 msk vatn
 • 1 msk ólífuolía
 • salt og pipar

Maukið allt (nema kjúklinginn auðvitað) í matvinnsluvél. Smyrjið blöndunni  á kjúklinginn. Setjið á fat og eldið í ofni við 200 gráður í um klukkustund. Eldunartími fer eftir stærð kjúklingsins.

Kryddrasp

 • 3 brauðsneiðar (venjulegt heimilisbrauð)
 • 1/2 búnt söxuð flatlaufa steinselja
 • rifinn börkur af einni sítrónu
 • 2 pressaðir hvítlauksgeirar
 • cayennepipar
 • 2 msk ólífuolía

Myljið brauðsneiðarnar niður í kurl.  Hitið olíuna á miðlungsheitri pönnu og bætið hvítlauknum saman við. Bætið brauðkurlinu út á pönnuna þá steinselju, sítrónuberki og klípu af cayenne. Brúnið vel þar til að brauðið er orðið stökkt. Saltið varlega með sjávarsalti.

Chilismjör

 • 2 chilibelgir (jalapeno ef þið finnið)
 • 1/2 búnt fínt söxuð helst flatlaufa steinselja
 • safi úr einni sítrónu
 • 1 msk salvía
 • 25 g smjör

Fræhreinsið chilibelgi og saxið fínt. Bræðið smjör á pönnu og eldið chili í 1-2 mínútur. Bætið sítrónusafa, salvíu og steinselju saman við. Látið malla á vægum hita í 3-4 mínútur.

Kryddkjúklingur

 

Þegar kjúklingurinn er fulleldaður er chilismjörinu hellt yfir hann og síðan raspinu áður en hann er borinn fram.

Með þessu ferskt og bragðmikið Chardonnay úr Nýja heiminum s.s. hið argentínska Trivento Reserve.

 

 

 

Deila.