Guigal og Vidal Fleury – á heimaslóðum Syrah

Bæinn Ampuis er að finna rétt suður af borginni Lyon í Mið-Frakklandi. Þetta er ekki mikið þéttbýli enda láglendið við bakka fljótsins Rhone ekki mikið á þessum slóðum áður en háar og brattar fljótshlíðarnar taka við. Þrátt fyrir að þorpið beri ekki mikið yfir sér er þetta engu að síðar heimabær nokkurra af þekktustu vínhúsum Frakklands og í hlíðunum eru ræktuð eftirsóttustu vín Rhone-dalsins, hin mögnuðu Cote-Rotie.

Sunnar í Rhone eru margvíslegar þrúgur ræktaðar, Grenache, Carignan, Mourvédre og fleiri. Hérna er það hins vegar Syrah sem skiptir öllu máili, ekki bara í kringum Ampuis heldur einnig á svæðunum suður með ánni, St.Joseph, Cornas og Hermitage. Þetta er upprunasvæði Syrah og stundum er hún blönduð saman við hina hvítu þrúgu Viognier áður en vínið er gerjað.

Það sem gerir svæðið í kringum Ampuis svo einstakt er annars vegar að þarna tekur fljótið á sig sveigju og rennur í suðvestur á um tíu kílómetra kafla sem gerir að verkum að suðurhlíðarnar njóta sólar stóran hluta dagsins á sumrin. Þá er grýttur jarðvegurinn í hlíðunum, sem reynt hefur verið að halda í skefjum í gegnum aldirnar með hlöðnum veggjum, það sem setur hvað mest mark á vínin. Þekktustu svæðin í Cote-Rotie eru nefnd eftir því hver jarðvegssametningin er, á Cote-Brune er járnríkur sandsteinn en á Cote-Blonde er kalksteinn og granít ríkjandi. Þau fyrrnefndu eru höfugri og tannískari og þau síðarnefndu arómatískari.

Eitt af rótgrónustu vínhúsum Ampuis er Vidal-Fleury.  Raunar státar þetta vínhús sem var stofnað árið 1791 að vera það vínhús Rhone sem hefur verið lengst í samfelldum rekstri.  Í miðbænum má enn sjá gamlar byggingar merktar vínhúsinu en starfsemin flutti hins vegar fyrir nokkrum árum í nýmóðins byggingar í útjaðri bæjarins og minna höfuðstöðvarnar helst á nútímalegt vínhús í Nýja heiminum. Með nýju höfuðstöðvunum er Vidal-Fleury ekki bara elsta vínhúsið á svæðinu heldur líka það nútímalegasta. Allt er tölvuvætt, nýjasta tækni hvert sem litið er og í geymsluhúsinu sjá róbotar um að vinna ýmis verk.

Vínin taka mið af þessu, þau eru í senn nútímaleg og hefðbundin. Guy Sarton du Jonchay, framkvæmdastjóri og víngerðarmaður Vidal-Fleury er Frakki í aðra ættina og Argentínumaður í hina og hóf víngerðarferil sinn í Mendoza í Argentínu. Við byrjum á GSM-línunni þar sem rauðvínið og rósavínið er gert úr Grenache-Syrah-Mourvedre og hvítvínið úr Grenache Blanc-Sauvignon-Marsanne. Öll fersk, ávaxtarík og litmikil. Það þurfti smá tilfæringar til að halda konseptinu enda engin hvít Rhone-þrúga hvers nafn byrjar á S. „Sauvignon er eina þrúgan sem ekki er upprunnin á svæðinu sem við erum að vinna með,“ segir,“ du Jonchay.

Við færum okkur næst yfir í Cotes-du-Rhone vínin og þar vekur hvíta Cotes-du-Rhone-vínið athygli. „Það er eitt af sérkennum vínhússins að við notum Viognier mikið og í þessari blöndu er hlutfall þrúgunnar um þrír fjórðu af blöndunni.“

Í rauða Cotes-du-Rhone-víninu er það hins vegar Grenache sem er stærstu hluti blöndunnar, vinið hefðbundið og bjart. „Við viljum helst geyma vínin aðeins áður en þau fara á flösku og annað sérkenni okkar er líka hversu djúpur liturinn er á vínunum,“ segir hann. Við smökkum áfram vín frá suðurhluta Rhone, mikil og flott vín frá t.d. Gigondas og Chateauneuf-du-Pape áður en við færum okkur yfir í norðurhlutann. Einfaldasta vínið þaðan er Crozes-Hermitage af sléttunum við Hermitage-hæðina og segir du Jonchay það vera eina vínði úr norðurhlutanum þar sem lögð er meiri áhersla á ávöxt en strúktúr vínsins. Það vantar þó ekki tannín í vínið, sem er þétt og nokkuð piprað. St. Joseph er fyrsta vínið í smökkuninni þar sem einkenni norðurhlutans koma fyllilega í ljós og þau eru algjörlega ríkjandi í Cote-Rotie Brune et Blonde 2006, leður, kaffi og súkkulaði, mikil sýra og mikil en mild tannín. Cote Rotie La Chatillonne 2006 er stórt og mikið, fjögur ár á nýrri eik, þykkt, mikið og massívt.

Eitt af sérkennum vínhússins eru loks sætvínin frá Beaumes-de-Venises en Vidal Fleury hefur starfað á því svæði frá því á fyrri hluta síðustu aldar. „Í sumum löndum erum við enn þekktari fyrir Beaumes en Cote Rotie,“ segir du Jonchay. Þetta er styrkt, hvítt sætvín en sykurmagnið þó „einungis“ um 110 g á lítra. Fersk og ávaxtarík, best borin fram svöl með t.d. sorbet, en einnig ostum, foie gras og jafnvel krydduðum asískum mat.

Guigal

Vidal Fleury kann að vera elsta vínhúsið á svæðinu en það þekktasta og virtasta er engu að síður E. Guigal – sem raunar keypti ráðandi hlut í Vidal Fleury fyrir nokkrum árum.

Etienne Guigal, stofnandi vínhússins, byrjaði sem starfsmaður hjá Vidal Fleury áður en hann stofnaði sína eigin víngerð eftir síðara stríð. Hann missti sjónina við upphaf sjöunda áratugarins og tók sonur hans Marcel þá við stjórninni. Marcel Guigal gerði fyrirtækið að stórveldi og endurreisti jafnframt vínsvæðið Cote Rotie sem var fallið í gleymsku á þessum árum og vínrækt komin niður í einungis 60 hektara. Marcel Guigal lagði ofuráherslu á einnar ekru vín og vínin hans La Landonne, La Mouline og La Turque (stundum kölluð „la la vínin“ af gárungum) eru nú með dýrustu og eftirsóttustu vínum Frakklands. Philippe sonur Marcels er nú smám saman að taka við stjórn fyrirtækisins.

Árið 1995 keypti Guigal Chateau Ampuis, langstærstu og glæsilegustu byggingu Ampuis, höll frá sautjándu öld og upphaflega virki á þrettándu öld við bakka Rhone. Táknrænt fyrir stöðu hans í Ampuis. Móðir Marcels vann sem þerna í Ampuis þegar hún var ung en nú er þessi glæsilega höll, sem gerð hefur verið upp frá grunni, óðalssetur fjölskyldunnar.

Víngerð og vínkjallari Guigal er með þeim glæsilegustu í heimi, endalausir raðir af tunnum, fullar af gersemum, enda hvíla yfirleitt um fjórir árgangar af hverju af þekktustu vínum Guigal í kjallaranum sem telur eina fjóra hektara! Það er engu til sparað við víngerðina, enda eiga og verða vín í þessum flokki að bera af og vera fyrirmynd annarra.

Þegar ég heimsótti Guigal síðastliðið sumar gafst færi á að smakka nýjustu árganga af öllum vínum Guigal, allt frá Cotes-du-Rhone upp í la-la vínin þrjú og nýja toppvínið frá Hermitage, Ex Voto,  með þeim feðgum Marcel og Philippe. Það er Philippe sem stjórnar nú víngerðinni og hann leiddi menn í gegnum árgangana, sem í sumum tilvikum voru enn tunnusýni, þar sem eftir átti að setja 2010 árganginn á flösku.

Það verður ekki af þessum vínum skafið að þau eru mögnuð, þau auðvitað enn óárennileg, enda eitt af einkennum Guigal að vínin þurfa langan tíma til að ná þroska,. Þó hefur stíllinn að sögn Philippe verið að færast í þá átt að þau verði tilbúin fyrr án þess þó að grunnstíll vínanna breytist, sama þróun og í t.d. Bordeaux. Guigal hefur verið að færa út kvíarnar, ofurvínið Ex Voto með þeim bestu frá Hermitage og ég hreyfst ekki hvað síst af St. Joseph víninu Vignes de’ l’Hospice sem kemur af lítilli ekru fyrir ofan þorpið Tournon nokkrum tugum kílómetra suður af Ampuis.

Mest selda vínið er hins vegar Cotes-du-Rhone frá suðurhlutanum enda er það vín (sem fæst hér á landi) hrikalega vel gert eins og allt annað sem frá þessu vínhúsi kemur en kostar bara brotabrot af verði lala-vínanna.

Um heimsóknir til fleiri franskra vínhúsa má lesa hér

Deila.