Framsækni í Piemonte

Enrico Rivetto er fjórða kynslóð fjölskyldunnar sem að stýrir víngerð vínhússins sem að ber nafn fjölskyldunnar. Vínhúsið er til húsa í þorpinu Serralunga d’Alba hátt uppi á hæð sem horfir yfir hjarta Barolo-svæðisins í Langhe í Piemont. Hann hefur dreymt um að koma til Íslands allt frá því að hann var átta ára en þegar að krökkunum var falið að velja sér land til að segja frá í landafræðiverkefni þá valdi hann Ísland. Flestir aðrir völdu lönd á borð við Frakkland, Grikkland, Bretland og Bandaríkin en Enrico litli hafði heyrt af goshverunum og eldfjöllunum  á eyjunni í norðri og það var landið sem að hann valdi að taka fyrir. Það var hins vegar fyrst núna á dögunum sem að hann átti þess kost að koma til Ísland. Vín frá Rivetto hafa verið fáanleg á Íslandi frá því á á síðasta ári og ákvað hann því að koma við og halda smökkun fyrir áhugasama viðskiptavini.

Enrico er fulltrúi nýrrar kynslóðar víngerðarmanna í Piemonte, einhverju rótgrónasta svæði Ítalíu. Hann segir að margt hafi breyst á milli kynslóða og þá ekki bara í sjálfri víngerðinni. Kynslóð föður hans hafi aldrei talað við nágrannana. Menn hafi ekki verið að deila á milli heldur haldið öllu fyrir sig. „Bændamenningin á þessum tíma var þannig að það mátti aldrei fréttast ef að eitthvað gekk vel hjá einhverjum. Menn voru alltaf að barma sér og láta eins og heimurinn væri að farast, hræddir um að nágranninn kæmist að því hvað þú værir að gera. Þetta hefur breyst mikið og nú er miklu meira samband á milli manna. Við reynum að  skiptast á reynslusögum og læra hver af öðrum. Auðvitað ekki ljóstra uppi viðskiptaleyndarmálum en vinna saman að því að þróa framleiðslu héraðsins.“

Það sem skiptir Enrico mestu máli núna er að gera vínræktina náttúrulegri. Honum verður tíðrætt um „vonda tækni“ sem sé að gera vínrækt og víngerð gervilegri þar sem hægt sé að beita alls kyns aðferðum til að færa vínði frá upprunanum í því skyni að gera það markaðsvænna. Hann ítrekar að hann sé alls ekki á móti því að nútíma tækni sé notuð – það sé nauðsynlegt – en það verði að tryggja að vínið sé áfram sem náttúrulegast.

„Við höfum lagt mikið upp úr því að gera vínræktina sem náttúrulegasta og á næsta ári munum við fá vottun sem lífrænn vínræktandi. Það er hins vegar ekki nóg að mínu mati – ég vil ganga lengra. Þetta snýst ekki um einhverjar vottanir heldur það að vínði sé sem eðlilegast,“ segir Enrico Rivetto.

Hann er með nokkur spennandi verkefni í gangi þar fyrir utan. Rivetto er eitt 22 vínhúsa sem hefur unnið að því að endurheimta hvítvínsþrúguna Nascetta sem var nær útdauð. Piemonte er fyrst og fremst rauðvínshérað og þetta er eina svæðisbundna hvítvínsþrúgan – er í útgáfu Rivetto einhver staðar á milli Gruner Veltliner frá suðurhluta Austurríkis og hvítra Rhone-vína frá Frakklandi. úr Roussanne og Marsanne-þrúgunum. Í smökkuninni voru það hins vegar auðvitað Nebbiolo-vínin sem báru af. Hefðbundið Langhe virkilega flott með góðum tannískum strúktur og síðan þrjú Barolo til dæmis Serralunga d’Alba sem er fáanlegt hér og sjá má umfjöllun um hér.

Rivetto-fjölskyldan er líka að þróa fram ýmislegt annað meðal annars freyðivín úr Nebbiolo sem framleitt er með kampavínsaðferðinni.

Enrico segir mjög mikilvægt að vera í góðum tengslum við viðskiptavini og áhugasama vínáhugamenn, deila með þeim upplýsingum og segja þeim frá því hvers vegna víngerðin tekur tilteknar ákvarðanir. Það snúist um traust og gott samband. Hann er líklega fyrsti víngerðarmaðurinn í Piemonte sem heldur úti bloggi á nokkrum tungumálum þar sem að hægt er að fylgjast með flestu því sem er að gerast. Bloggið má sjá á blog.rivetto.it

 

 

 

 

 

 

Deila.