Hildigunnur bloggar – Andabringur með kirsuberjasósu

Svona þegar fólk er farið að langa aftur í smá lúxus, meinlætin búin eftir jólin…

Andabringur, svona ríflega hálf á mann er fínt

Krossskerið í fituhliðina á bringunum en athugið að fara ekki alla leið inn í kjöt.
Steikið á fituhliðinni í 5 mínútur við góðan hita. (Það mun renna talsverð feiti af, ekki henda henni, hún er algjör sælkerafeiti til að steikja upp úr síðar). Steikið síðan hina hliðina í eina og hálfa mínútu. Kryddað bara með salti og smá pipar.

Sósan:

Ein krukka kirsuberjasósa, berin sigtuð frá
1 msk púðursykur
1 msk sérrí eða púrtvín, áttum reyndar hvorugt núna síðast þannig að ég notaði þurrt Martini. Kom vel út.
1 msk kjúklingakraftur (helst fljótandi)
smá salt

Safinn úr krukkunni ásamt sykri, víni, kjúklingakrafti og salti sett í pott og soðið niður í nokkrar mínútur. Berjunum bætt við í lokin.

Berið fram með smjörsteiktum kartöfluskífum eða ofnsteiktum kartöflubátum. Vel má hugsa sér að hafa ferskt salat með. Þokkalega kraftmikið rauðvín passar vel, til dæmis El Circo Acróbata GarnachaEl Circo Acróbata Garnacha.

Deila.