Farro með steiktu blómkáli og pancetta

Margir hafa fordóma gagnvart blómkáli sem er miður enda frábært hráefni. Kannski má rekja það til þess að við venjum því soðnu. Á Ítalíu og víðar um Miðjarðarhafið er það hins vegar oftast steikt eða bakað með ólífuolíu sem breytir bragði þess – gerir það hnetukenndara. Við gerum það einmitt hér og blöndum saman við ítalskt beikon (pancetta) og farro. Það má nota venjulegt beikon í staðinn fyrir pancetta og bygg í staðinn fyrir farro. Gott meðlæti t.d. með grilluðu kjöti.

  • 3 dl Farro
  • 1 blómkálshaus
  • 100 g pancetta
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 væn luka flatlaufa steinselja
  • 1-2 msk nýpressaður safi úr sítrónu
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Byrjið á því að sjóða kornið. Það er mjög gott að sjóða það með grænmeti til að gefa meira bragð. Skerið gulrót, sellerístöngul og lauk í tvennt. HItið olíu í potti og steikið í 1-2 mínútur. Bætið þá farro saman við og síðan vatni og einu lárviðarlaufi. Sjóðið á miðlungshita í 20-25 mínútur. Farro-kornin eiga enn að hafa smá bit undir tönn. Takið lauk, gulrót, sellerí og lárviðarlauf upp úr og hendið. Geymið farro.

Skerið pancetta í litla teninga eða ræmur. Skerið blómkálið niður í bita. Saxið hvítlaukinn.

Byrjið á því að steikja pancetta ásamt örlítilli ólífuolíu í 3-4 mínútur eða þar til það byrjar að verða stökkt. Takið á af pönnu og geymið. Bætið ólífuolíu út á og steikið blómkálið í 8-10 mínútur eða þar til að það hefur tekið á sig góðan lit. Setjði pancetta út á aftur ásamt hvítlauk. Steikið áfram í 1-2 mínútur. Geymið.

Blandið nú saman farro, blómkálsblöndunni og steinseljunni. Það má líka nota fleiri ferskar kryddjurtir, s.s. basil eða óreganó. Hrærið sítrónusafanum og ólífuolíu saman við. Bragðið til með salti og pipar.

Fleiri spennandi leiðir til að elda blómkál finnið þið hér.

Deila.