Haukur Heiðar bloggar: Alvöru nördabjór frá Founders

Það fer ekki á milli mála að bjórmenning Íslendinga er á gríðarlegri siglingu. Innlendu brugghúsin standa vel að vígi og fólk er almennt farið að meta krefjandi og framandi bjóra. Það sem hefur fylgt vaxandi bjórmenningu er sprengja í framboði á góðum erlendum bjórum. Bjórar sem eru seldir með þeirri hugsjón að stuðla að betra bjórúrvali og betra aðgengi að úrvalsbjórum. Founders brugghúsið frá Grand Rapids í Michigan hefur um árabil verið talið eitt allra besta brugghús Bandaríkjanna af internet síðum eins Ratebeer.com og BeerAdvocate.com. IPA bjórinn Centennial IPA hefur verið talinn einn besti IPA bjór austurstrandarinnar og Kentucky Breakfast Stout verið talinn einn eftirsóttasti bjórinn í Bandaríkjunum. Saga Founders er keimlík öðrum sögum frá stofnun brugghúsa í Bandaríkjunum. Mike Stevens og Dave Engberts kynntust í háskóla þar sem þeir voru duglegir við að heimabrugga. Þeir lögðu allt undir árið 1997 þegar þeir stofnuðu brugghúsið sitt. Áætlun var að brugga bjóra sem voru flóknir, stórir og ólíkir hinum venjulega lagerbjór. Stefnan var því aldrei að reyna að brugga bjór fyrir hinn venjulega neytanda heldur að brugga alvöru nördabjór. Leiðin hefur verið löng og ströng og á tímabili blasti gjaldþrot við þeim en í dag sitja þeir sáttir með eitt besta brugghús í Bandaríkjunum.

Það var því ákveðinn hvalreki þegar Járn og Gler ákváðu að flytja inn Founders til Ísland. Þeir hafa verið afar duglegir í innflutningi og fært Íslendingum bjóra frá Mikkeller, To Øl, Rogue og Sierra Nevada svo eitthvað sé nefnt.

Hingað til hefur Founders All Day IPA verið eini Founders bjórinn utan sérpöntunnar í ÁTVR en það mun breytast í næsta mánuði þegar Founders Imperial Stout verður fáanlegur.

Þessir tveir bjórar eru afar ólíkir. All Day IPA er mjög humlaður IPA en lágur í áfengisprósentu. Hann er tiltölulega nýr af nálinni en hann var fyrst bruggaður 2010. Þessi bjór er mikill tískubjór í Bandaríkjunum og hefur komið af stað miklu æði hjá brugghúsum sem keppast við að brugga IPA sem er lágur í áfengisprósentu og hentar því vel sem “session” bjór, þ.e. bjór sem auðveldlega er hægt að drekka nokkra í röð af. Hann hentar því mjög vel á pallinum í sumar eða einfaldlega á föstudegi eftir vinnu.

Founders

Founders Imperial Stout er hinsvegar kraftmikill imperial stout, sótsvartur með gríðarlega flott nef sem einkennist af sælgæti, smá súkkulaði, kakó og etv örlitlu sterku áfengi. Á tungu er hann gríðarlega mjúkur og flókinn. Hann er afar margslunginn en finna má keim af dökku súkkulaði, kakó og vanillu svo eitthvað sé nefnt. Í lokin má finna góðan biturleika frá humlunum en í senn krem mikla yfirferð sem gefur bjórnum ótrúlegt jafnvægi. Þetta er fullkomin bjór fyrir eftirrétt eða bara að sötra einn og sér. Einn af betri bjórum sem hafa fengist hér á landi.

Þess má geta að hægt er að fá fleiri Founders í sérpöntun ÁTVR, t.d. Centennial IPA, Dirty Bastard og hinn frábæra Breakfast Stout.

Deila.