Pasta með kálfaragú

Það sem við myndum kalla kjötsósu með pasta kalla Ítalír ragú. Þekktasta ragú-sósan er auðvitað ragú alla Bolognese en uppskrift að klassísku Spaghetti Bolognese má finna hér. Það er hægt að gera ragú með margvíslegu kjöti og að sjálfsögðu eru til nokkur afbrigði úr kálfakjöti. Kálfahakk má fá hjá hjálpsömum kjötborðum með smá fyrirvara (Melabúðin hefur reynst vel) og síðan er auðvitað hægt að kaupa hvaða kálfavöðva sem er og hakka hann niður.

 • 600 g hakkað kálfakjöt
 • 1 vænn laukur, fínt saxaður
 • 2 sellerístilkar, fínt saxaðir
 • 1 gulrót, fínt söxuð
 • 3 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • 1 dós grænar ólífur
 • 1 lítil dós tómatapúrra
 • rifinn börkur af einni sítrónu
 • 2 dl þurrt hvítvín
 • 1-2 msk kálfakraftur (Fond)
 • væn lúka af fínt saxaðri flatlaufa steinselju
 • 2 vænar lúkur af rifnum Parmigiano eða Pecorino osti.
 • ólífuolía
 • smjör
 • salt og pipar

Hitið olíu og smjör saman á pönnu. Mýkið lauk, gulrót og sellerí í einar fimm mínútur. Bætið hakki  á pönnu ásamt hvítlauk og steikið á miðlungshita í 4-5 mínútur. Saltið og piprið.. Bætið rósmarín saman við. ásamt tómatapúrrunni og hrærið vel saman við. Bætið fínt söxuðum ólífunum út á og hrærið saman. Hellið víni á pönnuna og sjóðið aðeins niður. Blandið steinseljunni og kálfakraftinum út á, eldið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið sítrónuberki saman við. Setjið ostinn út á, hrærið og berið fram með pasta og meiri osti.

Gott, ítalskt rauðvín, t.d. einfalt og fínt matarvín á borð við Romeo Montepulciano d’Abruzzo.

Deila.