Hildigunnur bloggar – Pastasalat sem leynir á sér

Bjó til ansi gott pastasalat um daginn, ættað frá Pioneer Woman í Ameríkunni. Ástæðan fyrir nafninu er edik og piparsósa í uppskriftinni, salatið lítur sakleysislega út en það bítur aðeins í bragðlaukana þegar smakkað er á því.

Í það fóru:

500 g pastavafningar (skeljar eru líka góðar, átti ekki þannig)
1/2 bolli mæónes
1/4 bolli léttmjólk
4 msk borðedik
1 1/2 tsk piparsósa (tabasco eða önnur)
1/2 tsk salt
svartur pipar
1 bakki kirsuberjatómatar skornir í helminga á lengdina
250 g gouda skorinn í bita (átti að vera reyktur en svoleiðis fæst ekki svo glatt hér)
24 heil basilblöð

Sjóðið pastað og kælið undir kalda krananum.

Klippið baslið í ræmur.
Blandið saman mæónesi, mjólk, ediki, salti, pipar og piparsósu.

Hrærið saman pasta, tómötum og ostbitum í stórri skál, hellið sósunni yfir ásamt basli og látið standa í ísskáp í amk. klukkutíma.

Virkaði fínt sem (semi)léttur kvöldmatur hér á bæ, ásamt hvítlauksbrauði en væri örugglega líka hörkufínn í samskotapartí.

Hérna er upprunalega uppskriftin.

Deila.