„Íslenskur“ vínbar og afbragðs ítalskur í London

Það var árið 2008 sem að þeir Agnar Sverrisson og Xavier Rousset opnuðu veitingahúsið Texture í London. Þótt það hafi ekki litið gæfulega út í fyrstu að hafa opnað fínan veitingastað rétt í aðdraganda alþjóðlega fjármálahrunsins náðu þeir félagar að halda sjó og vel það. Texture er í dag með hæst skrifuðustu veitingahúsum London og raunar Bretlands.

(Við hittum Agnar í London á sínum tíma og má lesa viðtalið við hann með því að smella hér).

Um tveimur árum eftir opnun Texture voru þeir farnir að huga að því að færa út kvíarnar og opnaði vínbarinn 28-50 Wine Workshop and Kitchen  á Fetter Lane í fjármálahverfinu City árið 2010. Tölurnar 28 og 50 vísa til breiddargráðanna á norður- og suðurhveli jarðar sem afmarka mörk mögulegra víngerðarsvæða.

28-50 staðirnir eru nú orðnir þrír. Auk upprunalega staðarins er kominn staður á Maddox Street í Mayfair og annar á Marylebone Lane í Marylebone.

Allir eiga staðirnir það sammerkt að bjóða upp á einfaldan og góðan mat og gott úrval vína á hófstilltu verði. Stemmningin er nútímaleg frönsk bistro-stemmning og það sama má segja um matseðilinn, eins konar blanda af bistro og tapasseðli.

Það er t.d. tilvalið að byrja á nokkrum smáréttum á borðið s.s. grilluðum og vel krydduðum Chorizo-pylsum og rifjum með „hoi sin“ sósu. Forrétti er hægt að fá í tveimur skammtastærðum og í aðalrétt er tilvalið að fá sér grillaða entrecote með béarnaise. Raunar var lambið sem einnig var pantað ekki síðra þótt breskt væri.

Vínlistinn er fjölbreyttur með skemmtilegu úrvali vína, jafnt frá klassískum svæðum sem óvenjulegri og er flest vín hægt að fá í fjórum skammtastærðum: 75, 125, eða 250 cl  eða þá heila flösku. Flest vín eru á bilinu 5000 til 10 þúsund krónur miðað flösku. Að auki eru nokkur mjög vel valin (og ekkert fáránlega dýr) vín á svokölluðum „Collector’s List.

TIlvalinn staður fyrir léttan hádegisverð, afslappaðan kvöldverð, ekki síst ef hópurinn hefur gaman af því að prófa úrval góðra vína.

Ítalskir molar

Það eru margir skemmtilegir veitingastaðir í Marylebone norður af Hyde Park. Það ætti til dæmis enginn að láta ítölsku trattoríuna Briciole (sem mætti þýða sem brauðmola eða mylsnu) á horni Crawford Street og Homer Street fram hjá sér fara. Þetta er lítil ítölsk vin, iðandi af lífi og unaðslegri matarlykt sem tekur á móti manni strax við dyrnar.

Þetta er staður til að leyfa sér að panta eins marga rétti og manni langar í – annars vegar vegna þess að það er varla hægt að gera upp á milli þeirra unaðssemda sem er að finna á seðlinum og hins vegar vegna þess að verðin eru þannir að þau sprengja enga buddu. Skammtarnir eru vissulega líka litlir og því um að gera að hafa nóg af þeim. Til dæmis Vitello Tonnato, kálfakjöt í túnfiskssósu, Bruschetta með vel kryddaðri Nduja-pylsu frá Kalabríu, fáið ykkur líka skammt af einhverri af þeim fjölmörgu skinkum sem eru í boði og að maður minnist nú ekki á ostana – t.d. rjómafylltan Burrata mozzarella úr bufflamjólk frá Púglia. Og ekki gleyma lamba ragú kjötsósunni með pasta. Vínlistinn býður upp á öll helstu svæði Ítalíu, vín frá góðum framleiðendum á virkilega góðu verði miðað við London

Umfjöllun um fleiri spennandi staði í London finnið þið hér.

 

 

 

Deila.