Hallveig bloggar: gleðirík fersk pizzasósa!

Eftir yndislegan gleðifylltan dag á Gay Pride í Reykjavík þurfti að elda eitthvað extra gott til að halda áfram að halda upp á daginn. Þar sem dagurinn í dag var einn af fáum sólríku dögum sumarsins á suðvesturhorninu varð það að gerast á grillinu og pizza varð fyrir valinu. Heimagerð pizza verður aldrei jafngóð eins og á kolagrilli, en að mínu mati er lykillinn að heimagerðri pizzu tvennt: hráefnið og að gera sem flest frá grunni.

Hráefnið var að þessu sinni með betra móti. Í tilefni dagsins splæsti ég nefnilega í alvöru mozzarella di bufala sem fæst stundum í búðinni Piccolo Italia á Frakkastíg (sú búð er reyndar svo sannarlega eins og litla Ítalía, allt þar inni minnir á ítalska heimilislega trattoríu, innréttingarnar, maturinn, vínglösin í loftinu og ekki síst eldgamli ítalski karlinn sem afgreiðir mann og talar að sjálfsögðu bara ítölsku! Ég náði að gera ostakaupin án þess að ruglast neitt í takmörkuðu ítölskunni minni og fannst ég hafa unnið í lottóinu!).

Annað hráefni var svo keypt í Frú Laugu: glænýr ítalskur rauðlaukur, parmaskinka, grösug ítölsk ólífuolía og ferskt íslenskt klettasalat. Þar að auki fóru á pizzuna nýrifnar parmigiano flögur og nýmalaður pipar.

En nú að sigurvegara dagsins. Fyrir nokkrum árum komst ég að því að fersk pizzasósa er miklu betri en elduð. Það kemur einhvernveginn of „unnið“ bragð af sósunni og hún verður of lík venjulegri marinara sósu. Til þess að ferska sósan virki þarf hráefnið samt að vera af hæsta gæðaflokki, en ef sósan er góð verður pizzan mun miklu betri en með niðursoðinni sósu. Sósann er auðvitað „soðin niður“ að því leiti að við notum hér tómat-passata sem hefur verið soðið niður, en lykillinn er að restin sé ósoðin þegar hún fer á pizzuna, hún eldast jú á henni á grillinu. Í þetta sinn notaði ég reyndar nokkra ferska tómata sem ég maukaði saman við, vel þroskaða ilmandi konfekttómata á grein sem eru ræktaðir á Sólheimum. Að ég held bestu matartómatar sem ég hef rekist á sem eru ræktaðir hér á landi.

En hér kemur uppskriftin af ferskri pizzasósu:

hálf flaska passata (hér mætti auðvitað nota hágæða niðursoðna tómata sem maður myndi mauka fyrst, gott væri þá að hella slatta af vökvanum frá fyrst)
2-3 hvítlauksgeirar pressaðir
1 msk ferskt oregano (eða 1 tsk þurrkað ef maður á ekki ferskt)
1/2 tsk laukduft (má sleppa)
1 tsk maldon salt
nokkrir snúningar nýmalaður svartur pipar
1 tsk sykur
1 msk hágæða extra virgin ólífuolía
1 tsk hágæða balsamik edik
2-3 msk niðursöxuð fersk basilika.

Blandið öllu saman og leyfið að standa smástund áður en þið notið sósuna. Þó má vel nota hana strax ef þörf knýr á!

Pizzan okkar var svo hjartalaga. Það átti svo vel við 🙂

Deila.