Philippine de Rothschild látin

Philippine de Rothschild barónessa eða Madame de Rothschild eins og hún vildi sjálf láta kalla sig lést 22. ágúst í Bordeaux, áttræð að aldri. Hún var sannkölluð „grande dame“ vínheimsins og stjórnaði þessu virtasta vínhúsi heims af festu og öryggi um áratugaskeið og gerði það að alþjóðlegu stórfyrirtæki með því að leggja sama metnað í að koma Mouton Cadet sem Mouton Rothschild á framfæri alþjóðlega.

Ég hef átt þess kost nokkrum sinnum að heimsækja Mouton-Rothschild í Pauillac flaggskipið í safninu en einnig vínhúsin Opus One í Napa í Kaliforníu og Almaviva í Chile, vínhús sem reist voru í samstarfi við annars vegar Robert Mondavi og hins vegar Concha y Toro. Dæmi um þann stórhug og þá skörpu framtíðarsýn sem einkenndi Philippine de Rothschild. Mörgum hefði nægt að reka eitt af hinum fimm Chateau-um Bordeaux sem tróna efst á toppnum sem Premier Grand Cru Classé. Hún sótti hins vegar ávallt fram og var alltaf í fremstu röð. Hún geislaði af krafti, óbilandi viljastyrk og ákveðni.

Philippine de Rothschild kom einu sinni til Íslands, í júní 1994. Þá tók ég við hana eftirfarandi viðtal þar sem hún segir frá ævihlaupi sínu og sýn:

Það fer ekki á milli á mála að Philippine de Rothschild barónessa, eigandi fyrirtækisins Baronne Philippe de Rothschild S.A., er lífsglöð kona. Það er aldrei dauð stund þegar þessi síbrosandi og hlæjandi kona er nærri. Áratuga reynsla hennar af leikhúsi, m.a. hjá Comedie Française og Renaud-Barrault, koma greinilega fram í fari þessarar fjölhæfu konu, sem tók alfarið við rekstri fjölskyldufyrirtækisins er faðir hennar Philippe de Rothschild barón, lést árið 1988. Nú stundar hún listgreinina víngerð af sama kappi og hún sinnti leiklistinni áður.

Rothschild-ættin teygir anga sína víða um Evrópu og hefur hún skarað fram úr á öllum þeim sviðum sem hún hefur komið nálægt, hvort sem um er að ræða bankastarfsemi eða víngerð. En hvaða áhrif telur Philippine að það hafi haft á sig að fæðast inn í þessa fjölskyldu og eitt virtasta víngerðarfyrirtæki veraldar?

„Ég fæddist skömmu fyrir stríð og var í Frakklandi meðan á stríðinu stóð. Öll mín fjölskylda hafði farið til Bandaríkjanna eða Englands. Faðir minn var í Englandi en móðir mín var handtekinn af nasistum 1944 og lést í útrýmingarbúðum. Það hefði eiginlega ekki þurft að gerast, það var mjög óvarlegt af henni að vera áfram í París og það var kraftaverk að ég lifði stríðið af. Æska mín einkenndist því lítið sem ekkert af auði, víni og Rothschild-ættinni. Líf mitt snerist um það að finna eitthvað af borða og hlaupa á milli gatna án þess að rekast á nasistana. Allt hitt, vínið og auðurinn komu miklu síðar. Og láttu mig vita að það sem gerist á milli fimm og tólf ára aldurs skiptir máli. Ég var líka gerð að kaþólikka í stríðinu og alin upp sem slíkur þar sem móðir mín lét mig í klaustur til að bjarga mér frá nasistunum. Ég er eini Rothschildinn í heiminum sem er kaþólikki og sú staðreynd að ég var ekki gyðingur bjargaði líklega lífi mínu. Ég man enn eftir því nokkru eftir stríðið, líklega 1947-48, að faðir minn kom inn í herbergið, andvarpaði og spurði hvort að ég ætlaði virkilega að vera með þennan róðukross á veggnum það sem eftir væri ævinnar. Og ég svaraði já, af hverju ekki? Ég er því enginn dæmigerður Rothschild.

Erfitt eftir stríðið

Árin eftir stríð voru líka mjög erfið. Það urðu allir að vinna hörðum höndum, konur urðu að vinna og ég hef alltaf gengið út frá því að ég verði að vinna. Ævi mín tók því á sig allt aðra mynd en hún hefði líklega gert án stríðsins. Ég hugleiddi það aldrei að ég væri Rothschild og lít ekki svo á að ég hafi átt verndaða æsku. Ég lít stundum á börnin mín og hugsa Guð minn góður, þau eru ofvernduð, þau átta sig ekki á þeim hættum sem geta falist í lífinu.“

Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir stríðið að Philippine de Rothschild komst fyrir alvöru í snertingu við vínið. Faðir hennar eignaðist Mouton aftur að því loknu og segir barónessan að Mouton hafi lengi vel verið leikvöllur í hennar huga. „Þetta var staðurinn þar sem maður byggði lítið hús og lék sér í trjánum og skemmti sér. Auðvitað tengdist ég víninu í gegnum uppskeruna, ég naut þess að fylgjast með henni. Ég fór reglulega í heimsóknir til kjallarameistarans á meðan á uppskerunni stóð og kom upp algjörlega ölvuð. Það var þó ekki vegna þess að ég hafði bragðað einn einasta dropa heldur var ég ölvuð af öllu andrúmsloftinu í kringum víngerðina. Þegar ég var sextán ára byrjaði ég að smakka vín fyrir alvöru og fór á flestar smakkanir með föður mínum. Vínið var alltaf hluti af mér, eitthvað sem ég fann innra með mér, en blandaðist samt svo mörgu öðru á þessum aldri. Gleðinni, ánægjunni, Mouton og góða veðrinu. Það var ekkert okkar sem hafði minnsta áhuga á að fara til Máritaníu, Seychelles-eyja eða svipaðra staða í frí. Maður var ánægður í Frakklandi og það var þar sem ég lærði inn á vínið og lærði inn á það sem unun. Þetta var heillandi, hvert ár svo ólíkt. Ég held að ég hafi lært inn á vínin líkt og maður ætti helst að læra inn á allt, nefnilega með ánægju. Það var alltaf sorglegt að fara aftur til Parísar og byrja að læra stærðfræði aftur. Það var alltaf gaman í Mouton. Ég var aldrei að velta fyrir mér að ég væri Rothschild en það var samt allt í lagi. Það truflaði mig ekki.“

Leiklistin ofan á

Samt sem áður ákvað Philippine de Rothschild að leggja ekki vín heldur leiklist fyrir sig sem atvinnu. Hún segir það hafa verið vegna þess að hún hafi aldrei litið á vínið sem vinnu. Faðir hennar hafi algjörlega séð um alla hluti þar til um 1983 er hann var orðinn veikur. „Ég var raunar byrjuð að setja upp leikrit þegar sem barn í Mouton. Þarna eru svalir þar sem við lékum sjóræningja og alls konar ótrúlegar ævintýrasögur. Ég hafði alltaf verið heilluð af leiklist frá því að ég fór á sýningu skömmu eftir stríð, þá tólf ára gömul, hjá Comedie Française í París.“

Þú hlýtur að hafa séð eftir leiklistarferlinum þegar þú hófst störf í víniðnaðinum? „Gífurlega. Ég hafði starfað við leiklist í 25 ár og þetta var mitt líf. Allir vinir mínir voru í leikhúsinu, ég hafði gifst leikara og eignast með honum börn. Vínið var hins vegar alltaf til staðar en ég leit þó ekki á það sem viðskipti fyrr en á níunda áratugnum. Það verður að hafa hugfast að við vorum alltaf mjög lítið fyrirtæki en höfum vaxið gífurlega á undanförnum árum. Okkar nánast eina vara var til skamms tíma Mouton-Rothschild, stórbrotinn Premier Grand Cru.

Vínsprengingin breytti öllu

Mouton-Cadet var til skamms tíma einungis til sem rauðvín og við seldum tíu sinnum minna af því en við gerum í dag. Við vorum ekki með fjölda umboðsmanna um allan heim heldur einungis um tíu, sem við þekktum náið persónulega. Þetta var því miklu afslappaðri, vinalegri og ekki eins formlegur rekstur, sem faðir minn sá alfarið um. Það var eiginlega ekki þörf fyrir manneskju á borð við mig. Vínsprenging síðasta áratugar breytti öllu og það var mjög erfið ákvörðun fyrir mig að hætta að leika og hefja störf hjá fyrirtækinu. Ég varð hins vegar að gera mér grein fyrir því að ég var sú sem ég er og að fyrirtækið varð að starfa áfram. Faðir minn sýndi Mouton-Rothschild mestan áhuga en ég sýni Mouton-Cadet kannski ekki meiri en að minnsta kosti einnig mjög mikinn áhuga. Innst inni vissi ég alltaf að einhvern tímann yrði ég að taka þetta yfir. En ég vissi ekki hvenær, hvernig ég ætti að gera það og hvernig það yrði fyrir mig. Allt í einu varð ég hálffimmtug að skipta algjörlega um starfssvið. Ég vissi mikið um vín en skorti tæknihliðina og fjármálahliðina.“

En hefur fyrra starf þitt sem leikari haft einhver áhrif á þig sem stjórnanda vínfyrirtækis? „Það sem ég tek með mér úr leikhúsinu er að þekkja inn á fólk og aðlögungarhæfni. Í leikhúsinu umgekkst ég ólíklegasta fólk t.d. þegar ég ferðaðist um heiminn með Comedie Française. Maður fær aðra tilfiningu fyrir fólki og það er þessi tenging við fólk sem ég hef úr leikhúsinu sem hefur hjálpað mér í þessu starfi. Því að menn í víniðnaðinum eru líka mjög ólíkir. Ég verð hins vegar að umgangast þá og get það vegna þess að ég hef áður verið í samskiptum við svo litskrúðugt fólk.“

Mouton-Cadet

Þú minntist áðan á hversu mikið fyrirtækið hefði stækkað á undanförnum árum. Telur þú að það geti verið erfitt að samræma ímynd víns á borð við Mouton-Rothschild við fjöldaframleitt vín á borð við Mouton-Cadet? „Sumum finnst það erfitt en ekki mér. Mér hefur aldrei þótt neitt athugavert við þetta á meðan menn hafa grundvallaratriðin á hreinu. Mouton-Rothschild er eitt mikilfenglegasta vín í heimi og framleiðslan er í mesta lagi um 350 þúsund flöskur á ári. Samanborið við hvaða víngerðarfyrirtæki í Kaliforníu eða hvað sem er þá er það ekki neitt. Þetta er dropi í hafið. Nafnið á Mouton-Cadet er þannig tilkominn að faðir minn var yngsti sonurinn í fjölskyldunni eða cadet. Það er allt önnur heimspeki sem liggur að baki og eina tengingin er orðið Mouton. Það var hugdetta föður míns á fjórða áratugnum og honum datt þá ekki í hug að nokkur myndi nokkurn tímann blanda þeim saman. Mouton-Rothschild er mjög dýrt vín og það var ekki síst þess vegna sem við hófum framleiðslu á Cadet. Við vildum framleiða vín samkvæmt okkar gæðastöðlum, sem fólk hefði efni á, án þess að reyna að líkja eftir hinum einstæðu gæðum Mouton-Rothschild. Það hefur ekkert upp á sig að bera þessi vín saman. Það eru framleiddar um 40 milljónir flaskna af Mouton-Cadet á ári og verðið er tíu til tólf sinnum lægra. Ég hef þurft að berjast mikið fyrir þessu og þú getur ekki ímyndað þér hversu mörg veitingahús við höfum þurft að kljást við vegna þess að þau kölluðu vínið Mouton-Cadet-Rothschild eða þá Chateau Mouton-Cadet. Við bregðumst mjög hart við slíku. Það dregur hins vegar ekki úr gæðum Mouton-Cadet í mínum huga og ég drekk það vín daglega. Þetta er yndislegt hversdagsvín, sem maður þarf ekkert að velta fyrir sér. Þetta er ekki smökkunarvín og ekki vín sem maður metur fram og til baka.

Á móti þá eru fimm vín í Bordeaux skilgreind sem Premier Grand Cru vegna hinna einstöku gæða sinna og eiginleika sem ég held að ekkert annað vín, sama hversu gott það er, muni geta náð á meðan ég lifi. Mouton-Rothschild er framleitt úr þrúgum sem koma frá mjög afmörkuðu svæði þar sem fylgst er með hverri þrúgu með stækkunargleri. Mouton-Cadet er blanda úr víni sem við kaupum frá hinum og þessum framleiðendum héðan og þaðan frá Bordeaux. Þetta er þeirra vín og vínekrur en við sjáum um blöndunina. Gæði Mouton-Cadet byggja á hæfileikum og þekkingu þeirra sem blanda vínið.“

Deila.