Trivento Golden Reserve Malbec 2012

Við höfum áður vakið athygli á því hversu góð Golden Reserve vínin frá Trivento eru miðað við verð en samt kemur það manni alltaf jafn mikið á óvart hversu góð þau eru. Hérna er á ferðinni vín undir þrjú þúsund krónum en jafnframt vín sem hefur uppbyggingu og yfirbragð miklu, miklu dýrara víns.

Mjög dökkt á lit, dökkfjólublátt út í svart. Þetta er massamikið vín, bláberja- og sólberjasaft sem er samofin ristaðri eikinni, þarna er reykur, örlítil vanilla og krydd. Mjög öflugt og kraftmikið í munni, en tannín eru nokkuð mjúk þótt þau taki í,  vínið heldur áfram og áfram, með sýru sem bítur í gegn. Þetta er afskaplega ungt vín en samt engu að síður algjörlega „tilbúið“ til neyslu þótt það borgi sig að umhella með 1-2 klukkutíma fyrirvara. Vín fyrir nautakjöt, hreindýr og lamb. Þess vegna bragðmeiri villibráð.

2.999 krónur. Frábær kaup.

Deila.