Vínin smökkuð á Rúbín

Það var sannkölluð veisla fyrir vínáhugamenn á dögunum þegar að fyrirtækið Haugen hélt stóra vínsýningu á veitingahúsinu Rúbín. Þangað voru mættir fulltrúar á annars tugs erlendra vínhúsa sem að kynntu vín sín og gáfu gestum kost á að ekki einungis smakka á vínunum heldur jafnframt ræða um þau og fræðast um uppruna þeirra og einkenni.

Þarna voru m.a. mætt feðginin Joan og Irene Cusine frá vínhúsinu Parés Balta, sem er staðsett í Pénedes rétt suður af Barcelona á Spáni. Joan heillaðist af Íslandi í heimsókn hingað með fjölskylduna fyrir um áratug og hefur alla tíð síðan lagt mikið upp úr því að geta boðið upp á vín sín hér á landi. Sem er ekki slæmt því þetta er eitt allra besta vínhús svæðisins. Fjölskyldan var aftur með í för í þessari Íslandsheimsókn og þetta var í fyrsta skipti sem að Irene fékk að aðstoða pabba á sýningu sem þessari, enda hluti af uppeldi þeirrar kynslóðar sem í framtíðinni á að taka við vínhúsinu.

Irene og Joan

Þarna buðu þau upp á vínin tvö sem hafa verið fáanleg hér á landi. Hvítvínið Blanc de Pacs og rauðvínið Mas Petit, bæði mjög nútímaleg, þurr og með meiri áherslu á ávöxt en eik. Framleiðslan hjá Parés Balta hefur verið algjörlega lífræn um árabil en er nú að auki jafnframt lífefld  (biodynamic) og hlaut fyrirtækið svokallaða Demeter-vottun í því sambandi í fyrra.

Á síðustu árum hefur Cusine fjölskyldan einnig verið að færa út kvíarnar og stofnað lítil vínhús í tveimur af virtustu víngerðarsvæðum Spánar. Annars vegar Priorat og hins vegar Ribera del Duero. Vínin þaðan sem heita Gratavinum og Dominio Romano eru sannkölluð „boutique“ eða „bílskúrsvín“. Mjög lítil framleiðsla í hæsta gæðaflokki líkt og smakka mátti þarna á Rúbín.

Það voru fleiri spennandi spænsk vínfyrirtæki með fulltrúa á vínsýningunni. Oscar Urrutia kynnti vínin frá Cune en fyrirtækið Compania Vinicola del Norte del Espana (Cune) er með þekktustu vínfyrirtækjum Spánverja. Rioja-vínin frá Cune eru klassísk og í byrjun síðustu aldar bættist vínhúsið Vina Real í sarpinn. Imperial Gran Resera frá Cune varð í fyrra fyrsta spænska vínið sem hlaut viðurkenninguna vín ársins hjá bandaríska víntímaritinu Wine Spectator. Þá stofnaði Cune árið 1973 fysta vínhúsið í Rioja sem byggði framleiðsluna á þrúgum af einni ekri. Það vínhús heitir Contino og er í dag með mögnuðustu vínhúsum Rioja.

Urrutia kynnti þarna stóran hluta af Cune-línunni. Hvítvín og rósavín og síðan rauðvín allt frá Crianza upp í Gran Reserva auk Imperial. Þetta eru afskaplega stílhrein og fáguð vín, klassísk og nútímaleg í senn og hafa verið í töluverðri gæðasókn á síðustu árum. Gran Reserva og Imperial Gran Reserva stóðu auðvitað upp úr en ávöxturinn í þau vín kemur af sömu ekrum. Þarna var 2007 Gran Reserva í boði og það er vín sem menn ættu að hafa augun opin fyrir.  Urrutia segist vona að einhvern geti hann einnig boðið upp á Contino-vínin á Íslandi fljótlega.

Þarna var líka David Fuentes frá öðru vínhúsi í Rioja sem lengi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér eða allt frá því að ég ánetjaðist vínunum frá Muga í ferðalagi um Spáni árið 1990. Þess má geta að Muga hefur löngum verið í miklu uppáhaldi þeirra er stundað hafa saltfisksviðskipti við Spán. Þetta eru mögnuð, stór og mikil vín. Og ekki bara rauð. Hvítvínið frá Muga, sem er 90% Viura og 10% Malvasia, er ekki síður áhugavert og sömuleiðis rósavínið, en Muga hefur framleitt rósavín allt frá árinu 1932.

Það eru hins vegar auðvitað rauðvinin sem eru aðalsmerki Muga og þarna voru tvö í boði. Muga 2010 og Muga Reserva 2009. Bæði ung, Muga 2010 veitir ekki af að minnsta kosti hálfu ári í viðbót á flösku en annars að umhella. Reserva vínið eins og hágæða Bordeaux-vín í strúktur, með föstum, kröftugum tannínum og djúpum undirliggjandi ávexti. Alveg magnað vín.

Christian Fischer

Christian Fischer frá vínhúsinu Fischer í Austurríki var einnig á staðnum og kynnti nokkur vín, bæði rauð og hvít. Fischer framleiðir vín í héraðinu Themenregion sem er eitt heitasta víngerðarsvæði Austurríkis. Hvítvínið úr austurrísku þrúgunni Gruner Veltliner var létt, með þægilegum mildum ávexti og örlitlum reyk. Thermenregion er í heitasta lagi fyrir Gruner Veltliner og segir Fischer að til að viðhalda ferskleika vínsins séu þrúgurnar tíndar snemma og með því fáist létt, þægilegt og ferskt vín. Hann sýndi þarna líka vín úr þrúgunum Blauer Portugieser og Zweigelt úr Classic-línunni en sú síðarnefnda er algengasta rauðvínsþrúga Austurríkis. Helmingur heildarframleiðslu Fischer er einmitt Zweigelt-vín í mismunandi gæðaflokkum.

Laurent Mique

Þarna mátti líka smakka margt annað spennandi. Til dæmis hin stórkostlegu hvítu Búrgundarvín frá Chatau Fuisse sem eigandinn Philippe Vincent kynnti. Við heimsóttum Chateau Fuisse í fyrrasumar og má lesa nánar um vínin þaðan hér. Þarna var einnig fulltrúi frá Laurent Miquel vínhúsinu í Suður-Frakklandi sem hafa reglulega vakið athygli okkar fyrir frábært hlutfall verðs og gæða. Þarna mátti t.d. smakka verulega athyglisverð vín, rauð og hvít úr ódýru línunni Vendanges Nocturnes sem reyndust afksaplega þægileg og heillandi en einnig hin þyngri og meiri vín úr t.d. Nord-Sud línunni. Eitt forvitnilegasta vín sýningarinnar var einnig á þessum bás. Hvítvín úr þrúgunni Albarino. Hún var upphaflega frönsk en er nú nær eingöngu ræktuð á Spáni ekki síst í Galisíu (Rias Baixas) og í norðurhluta Portúgal. Einhver mest heillandi hvítvínsþrúga sem er til en upprunalega barst hún til vesturhluta Íberíuskagans með pílagrímum sem að tóku vínvið með á göngu sinni um Jakobsveginn. Laurent Miquel hefur nú hafið ræktun á Albarino í Frakklandi á ný. Þetta er spennandi vín, titrandi ferskt, þurrt og grösugt.

Deila.