Sænskar kjötbollur

Ætli kjötbollur séu ekki það sem flestum detti í hug þegar sænsk matargerð er nefnd. Kjötbollurnar eru taldar hafa borist til Svíþjóðar við upphaf nítjándu aldar er Karl tólfti Svíakonungur sneri aftur frá ríki Ottómana. Þangað hafði hann leitað hörfað árið 1709 eftir að hafa orðið undir í orrustu við Rússa og dvaldi með hersveitum sínum í Bender (sem nú er hluti af Moldóvu) til ársins 1713. Svíarnir kynntust ýmsu á þessum tíma, þar á meðal kjötbollunum sem síðan hafa verið órjúfanlegur hluti af hinu sænska alþýðueldhúsi eða husmandskost.

Það er hægt að krydda bollurnar með margvíslegum hætti. Hér notum við sellerísalt. Það er líka algengt að nota t.d. papriku eða múskat og yfirleitt er notuð blanda úr grísa- og nautahakki.

 • 500 g nautahakk
 • 500 g grísahakk
 • 2,5 dl mjólk
 • 2 brauðsneiðar, skorpan sneidd af
 • 1 egg, pískað
 • 1 laukur, mjög fínt saxaður
 • 1 tsk sjávarsalt
 • 2 tsk sellerísalt
 • 1 tsk cummin
 • pipar
 • 1 peli rjómi (í sósuna)

Hellið mjólkinni í skál og setjið brauðsneiðarnar í skálina. Leyfið þeim að sjúga í sig mjólkina í nokkrar mínútur.

Hitið smjör á pönnu og mýkið laukinn á lágum hita. Bætið cummin saman við og steikið áfram í 1-2 mínútur. Geymið.

Blandið nú hakkinu saman við lbrauðið, laukinn, pískuðu eggi, salt, sellerísalt og smá nýmulinn pipar. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti hálftíma. Þannig verður blandan fastari í sér og auðveldara að móta kjögbollurnar.

Takið úr ísskáp og mótið litlar kjötbollur úr kjötblöndunni.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og steikið bollurnar á miðlungshita þar til þær eru brúnaðar allan hringinn og eldaðar í gegn. Ef bollurnar eru litlar ætti steikingartíminn að vera 8-10 mínútur.

Takið bollurnar af pönnunni og geymið.

Hellið rjómanum á pönnuna og leysið upp skófarnar á pönnunni. Leyfið að malla á miðlungshita í nokkrar mínútur eða þar til rjóminn er farinn að þykkna. Bragðið til með salti og pipar. Bætið kjötbollunum aftur  á pönnuna og leyfið þeim að hitna aftur. Berið fram t.d. með kartöflumús, sýrðum gúrkum og jafnvel sultu.

Fleiri uppskriftir af kjötbollum má finna með því að smella hér.

Deila.