Tenuta Sant’Antonio Valpolicella Superiore Nanfré 2012

Valpolicella er vínhérað á Norður-Ítalíu í grennd við hina sögufrægu borg Verona sem er m.a. sögusvið frásagnarinnar um þau Rómeó og Júlíu. Það eru þrjár meginþrúgur notaðar í Valpolicella, þær Corvina, Rondinella og Molinara. Vínin skiptast í nokkra flokka og þetta vín frá Tenuta Sant-Antonio er í flokknum Superiore, en þá eru gerðar auknar kröfur um þroska þrúgnanna sem eru notaðar (og þar með áfengismagn vínsins) og geymslu áður en það fer á markað.

Tenuta Sant’Antonio er vínhús sem er rekið af Castagnedi-bræðrunum, þeim Armando, Paolo, Tiziano og Massimo. Þetta er flott Valpolicella, dökkur kirsuberjaávöxtur, jafnvel út í svört ber, dökkt súkkulaði og krydd, áferðin er þurr, svolítið tannískt, kryddað í lokin.

Þetta er vín sem hentar mjög vel með margvíslegum pastaréttum til dæmis pasta að hætti íbúanna í Valpolicella.
2.299 krónur. Frábær kaup.

Deila.