Pata Negra Reserva 2010

Pata Negra eru vín sem framleidd eru af einu af stærstu vínhúsum Spánar, Garcia Carrion. Þetta eru ekki dýr vín, framleidd af afmörkuðum ekrum í litlu magni. Að undanförnu hafa sum vínanna frá Pata Negra engu að síður vakið verulega athygli alþjóðlega. Þetta vín var þannig eitt tveggja sem að hið virta breska víntímarit Decanter tók sérstaklega fyrir sem „framúrskarandi“ í umfjöllun sinni um 2010 árganginn í Rioja og gaf því einkunnina 18,5/20 eða 95 stig á 100 punktaskalanum.

Dökkt, ávöxturinn þungur, djúpur, vindlakassi í bland við dökkrauðan og þroskaðan ávöxt, nokkuð kryddað, smá selta, míneralískt. Þykkt, langt, sýrumikið. Algjörlega tilbúið núna en má vel geyma í nokkur ár. Þetta er kjöt fyrir góða nautasteik.

2.299 krónur. Frábær kaup á því verði

Deila.