Það er um að gera að hafa smá fjölbreytni í grilleldamennskunni. Hér sækjum við áhrifin til Mexíkó og berum fram grillaðan lax á tortilla-pönnuköku með geggjaðri avókadó og maíssalsa og ferskri hvítlaukssjógúrtsósu.
Penslið laxaflakið með olíu báðum megin, kryddið með cummin og reyktri papriku, saltið varlega. Þegar fiskur er grillaður er mikilvægt að hreinsa grillgrindina mjög vel áður. Setjið á heitt grillið með roðhliðina niður. Grillið í nokkrar mínútur, 3-5 eftir þykkt flaksins. Snúið við og grillið í 1-2 mínútur á hinni hliðinni.
Avókadó-salsa
- Rauðlaukur
- 2 tómatar
- 2 þroskaðir avókadó
- 3 dl maís
- lúka af fínt söxuðum kóríander
- safi úr 1/2 lime
Best er að nota ferskt maís en það er lika hægt að nota frosnar maísbaunir. Hitið á pönnu ásamt örlitlu af olíu þar til að maísinn fer að taka á sig örlítinn lit. Saltið og piprið varlega. Leyfið að kólna aðeins.
Saxið rauðlaukinn og skerið tómatana í bita. Skerið avókadó í tvennt, takið steininn úr. Hreinsið ávöxtinn úr hýðinu með skeið og skerið niður. Fínsaxið kóríander.
Blandið öllu saman í skál og kreistið lime-safann yfir.
Hvítlauksjógúrtsósa
- 3 dl grísk jógúrt
- 1 tsk Dijonsinnep
- 3 pressaðir hvítlauksgeirar
- örlítill limesafi
- salt og pipar
Blandið öllu saman í skál. Saltið og piprið varlega. Geymið í kæli.
Hitið loks tortilla-pönnukökur, smyrjið jógúrtsósunni á og salsa og fisk ofan á.
Með þessu ljúffengt Nýjaheims-Chardonnay, við prufuðum Trivento Chardonnay með sem smellpassaði.