Magnaðir Surtar í ár

Surtsdagurinn eins og bjórnördar kalla hann er á fimmtudaginn.

 

Síðustu ár hefur Borg Brugghús tekist að búa til hefð meðal öl áhugamanna á Íslandi. Fyrir nokkrum árum kviknaði hugmynd innan Borgar að brugga Imperial Stout sem Þorrabjór. Árið 2011 var Sturlaugur Jón Björnsson eini bruggari Borgar og brugghúsið tiltölulega nýlegt en átti velgengni að fagna í fyrsta íslenska IPA bjórnum, Úlfi. Valgeir Valgeirsson bættist við sem bruggari en hann hafði áður bruggað reykta Imperial Stout bjórinn Lava við góðan orðstír hjá Ölvisholti. „Hugmyndin að Lava var að brugga bjór fyrir sjálfan mig„ segir Valgeir aðspurður um Lava, en Lava var fyrsti Imperial Stout bjórinn sem bruggaður var á Íslandi og eflaust sá bjór sem er einna frægastur ef farið er út fyrir landsteinanna. „Ég átti aldrei von á að þessi hugmynd yrði að veruleika, að samþykkt yrði að við fengum að brugga 12% Imperial Stout“ segir Sturlaugur en talsverð vinna fór í að sannfæra yfirmenn Ölgerðarinnar um að brugga 12% Imperial Stout sem Þorrabjór.  Hugmyndin varð að veruleika og má segja að þessir tveir frumkvöðlvar, Valgeir og Sturlaugur, hafi komið af stað fyrstu bjórhefð Íslands í formi útgáfu á Surti. Bjórinn fór í sölu sem Þorrabjór og á hverju ári má sjá biðraðir við Vínbúðir eftir Surt hvers árs, en uppskriftin breytist á milli ára. Surtur var fyrsti bjórinn sem Valgeir og Sturlaugur brugguðu saman hjá Borg. Þegar þetta er skrifað eru bruggararnir þrír en síðan þessi hugmynd varð að veruleika hefur Árni Long bæst í hópinn.

Árið í ár gæti hugsanlega verið það besta hingað til. Alls eru 5 mismunandi Surtar í boði. Nýji Surtur þessa árs er Borg bjór Nr. 47. Kaffi Imperial Stout bruggaður með kaffi frá Te og Kaffi. Í boði eru einnig í afar takmörkuðu upplagi Surtar Nr. 8.4, 8.5, 8.6 og 30. Númerin eru mismunandi vegna tunnurþroskunnar en hinn upprunalegi Surtur Nr. 8 hefur fengið að liggja í Armagnac, Single Malt Whisky og Romm tunnum. Nr. 30 er hinsvegar reyktur og hefur sést áður en hann hefur verið afar vinsæl útflutningsvara frá Borg.

„Surtsdagurinn“ er sem áður segir frábær hefð og minnir margt á svipaða daga vestanhafs þar sem örbrugghús senda frá sér Imperial Stout bjóra sem eru oftast bruggaðir einu sinni á ári og í afar takmörkuðu upplagi. Þeir sem munu standa og bíða eftir að kjarnaverslanir ÁTVR opni á fimmtudaginn verða ekki sviknir þetta árið.

Vinotek hefur tekið stikkprufur á Surtunum í ár og má segja að þetta sé besta árið hingað til. Mýktin á tunnuþroskuðum Surtunum er með ólíkindum og erfitt að gera upp á milli þeirra. Flóknir og miklir en með vissa flauelsmýkt sem er þess valdandi að þeir bráðna í munni eins og sælgæti.

Surtur Nr. 47 er líklegast besti Surturinn síðan hinn upprunalega nr. 8 kom fram og verður spennandi að sjá hvernig landinn tekur honum.
Romm Surturinn tekur sig vel út í glasi
Deila.