Garún Garún mætir frá Borg

Borg Brugghús heldur uppteknum hætti við að fara út fyrir rammann í bjórgerð og nú er mætt viðhafnar útgáfa af Garúnu, Imperial Stout.

Borg hefur verið afar grimmt í Imperial Stout stílnum og stutt er liðið frá því að Surtur kom út í nokkrum mismunandi tunnu útgáfum. Nú er hinsvegar komin röðin að Garúnu en um dágott skeið hefur koníaks legin Garún verið fáanleg í verslunum ÁTVR. Það tókst afar vel til með gerð hennar og er ansi ljúffengur bjór. Borg hafa ákveðið að breyta til og koma með sterkasta bjór Íslandssögunnar. Tvær koníakstunnur og frost eimun hafa búið til Imperial Stout sem er með hvorki meira né minna en 21% áfengisinnihald.

Það verður að segjast að 21% er mikið áfengi. Svo mikið að auðvelt var að vera með fyrirfram ákveðna skoðun á þessum bjór. Hér hlyti að vera talsverður hiti. En svo er ekki! Garún Garún 19.2 er ótrúlega flókinn bjór, með kraftmiklum koníaks tónum, áberandi melassa og mikilli rist, Aðdáendur tunnuþroskaðra bjóra fá hér ansi mikið fyrir sinn snúð og líklegast er hér á ferð einn áhugaverðasti bjór sem Borg hefur látið frá sér.

Bragð og lykt er sögu ríkari. Garún Garún 19.2 mætir í verslanir þann 1. apríl næstkomandi og fær full meðmæli frá Vínotek.

Deila.