Hani í víni

Það er fátt franskara en hani í víni eða Coq au vin, þetta er franska sveitaeldhúsið eins og það gerist hvað best. Auðvitað er notaður kjúklingur en ekki hani og vínið þarf ekki endilega að vera frá Bourgogne líkt og margar klassískar uppskriftir segja til um. Það má jafnvel alveg vera úr belju. Það er þó best að nota fremur bragðmikið vín.

 • 1 kjúklingur, bútaður í 8 bita
 • 1 flaska rauðvín (750 ml)
 • 2 laukar
 • 2 gulrætur
 • 8 sveppir
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 4-6 sneiðar beikon
 • 1 lítil dós tómatamauk
 • 1/2 dl koníak eða brandí
 • 1 kryddvöndur (timjan, lárviðarlauf, steinselja)
 • smjör
 • salt og pipar

Saxið lauk, sveppi og gulrætur. Skerið beikon í sneiðar.

Hitið eina matskeið af smjöri í þykkum pottjárnspotti. Steikið beikonið í 2-3 mínútur. Bætið þá sveppunum, lauknum og gulrótunum saman við og brúnið í um 7 mínútur á miðlungshita. Þá er hvítlauknum bætt saman við og steiktur með í um 1-2 mínútur. Hellið koníakinu út í pottinn og notið það til að skafa upp skófarnar af botninum. Bætið tómatamaukinu út í. Hrærið saman og hellið síðan rauðvínininu í pottinn. Hitið upp að suðu.

Veltið kjúklingabitunum upp úr smá hveiti og smjörsteikið á pönnu í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Saltið vel og piprið. Þegar suðan er komin upp á víninu er kjúklingabitunum bætt út í pottinn ásamt kryddvendinum.

Látið malla á miðlungshita undir loki í um 90 mínútur. Snúið bitunum 1-2 í pottinum.

Með þessu þarf í sjálfu sér ekkert meðlæti en nýjar íslenskar kartöflur smellpassa og svo er auðvitað afskaplega gott að vera með baguette-brauð, þó ekki væri nema til að geta skafið upp sósuna. Góð og kröftug rauðvín smella að réttnum, t.d. Guigal Cotes-du-Rhone eða hið ítalska Isole e Olena.

Deila.