Innis & Gunn til Íslands

Nýlega fóru bjórar frá Innis & Gunn að birtast í vínbúðum hér á landi. Innis & Gunn er forvitnilegt brugghús frá Edinborg í Skotlandi. Brugghús er líklegast einföldun þar sem bjórinn er bruggaður á mismunandi stöðum í Skotlandi, en í ár fjárfestu þeir loks í eigin brugghúsi og má því ætla að framleiðsla þeirra sé komin á varanlegan stað.

Forsaga brugghússins er á þá leið að Dougal Sharp, stofnandi þess, var fenginn til að brugga bjór til að væta eikartunnur fyrir ónefnt viskí. Sagan segir að bjórinn hafi verið svo góður að ekki var möguleiki að sleppa því að setja hann á markað. Upp úr því varð til Innis & Gunn sem hafa alla tíð síðan þá sérhæft sig í eikuðu bresku öli.

Innis & Gunn var stofnað 2003. Um það leyti var handverks bjór að verða vinsæll og segja má að brugghúsið hafi verið stofnað á hárréttum tíma. Í dag eiga þeir 4 veitingastaði í Skotlandi og stefna á útrás með því að opna veitingastaði í Bandaríkjunum, Kanada og Svíþjóð.

Fjórir Innis & Gunn bjórar fást nú í verslunum ÁTVR.

Innis & Gunn Lager er mjúkur lager bjór. Örlítið grösugur og svalandi.

Innis & Gunn Original er “flaggskips” bjórinn þeirra. Breskt öl með talsverða sætu og keim af vanillu úr eikartunnunum sem bjórinn hefur fengið að liggja í. Innis & Gunn Rum Finish er síðan talsvert meiri um sig, breskt öl sem hefur fengið að liggja á romm tunnum. Talsverð sæta einkennir bragðið. Örlitlir tónar af þurrkuðum ávöxtum og karamellum. Einnig er fáanlegur Innis & Gunn IPA sem er ágætis India Pale Ale, maltmikill með talsverða beiskju og löngu eftirbragði.

Þessir bjórar frá Innis & Gunn eru forvitnilegir, talsvert öðruvísi en aðrir handverksbjórar og því áhugavert að smakka.

Deila.