Malbygg slær í gegn

Á árinu 2018 er afskaplega gaman að vera bjórunnandi á Íslandi. Eftir ákveðna stöðnun í nokkur ár spretta ný brugghús upp eins og gorkúlur upp um allt land. Það sem gerir þessa þróun afar áhugaverða er að í flestum tilfellum eru á ferðinni bjórunnendur eða heimabruggarar sem hafa slegið til, látið drauminn rætast og komið sér upp brugghúsi.

Malbygg í Skútuvogi er eitt slíkt. Aðstandendur eru Andri Þór og Ingi Már Kjartassynir ásamt Bergi Gunnarssyni. Andra og Inga þekkja margir frá Járn og Gler en þeir hafa verið afar duglegir að koma gæðaöli á markað hér á landi á undanförnum árum. Bergur er svo bruggari brugghúsins en hann gerði garðinn frægan hjá Bryggjunni Brugghús áður en hann kom til Malbygg.

Brugghúsið var smá tíma í gerjun ef svo má segja en Andri og Ingi voru lengi búnir að áforma opnun á brugghúsi sem væri drifið áfram af eldheitum áhuga á bjór. Þeir eru engir aukvisar þegar kemur að bjór, hafa farið ótal ferðir erlendis og heimsótt brugghús eins og Hill Farmstead, Tree House, Three Floyds og fleiri. Því til viðbótar koma ótal ferðir á bestu bjórhátíðir heims og má því segja að Malbygg sé sprottið af óbilandi áhuga á bjór og bjórgerð. Eins fram hefur komið var Bergur Gunnarsson að gera ákaflega góða bjóra hjá Bryggjunni. Hann lét slag standa og slóst í hóp með þeim bræðrum Andra og Inga.

Þrátt fyrir ungan aldur er Malbygg með puttann á púlsinum. Þeir eru að brugga bjór sem er undir miklum áhrifum frá austurströnd Bandaríkjanna og New England svæðinu. Þeir eru að brugga bragðmikla og ósíaða IPA bjóra, súrbjóra og kraftmikla Imperial Stout bjóra. Fyrstu tveir bjórarnir voru Sopi Session IPA og Galaxy IPA. Það má segja að þeir hafi slegið í gegn hjá bjóráhugamönnum sem hafa hingað til þurft að sækja IPA í New England stíl alla leið til Bandaríkjanna. Þessir tveir bjórar mættu á bari bæjarins og einnig í hillur í ÁTVR í dósa formi. Það er ákaflega gaman að sjá Malbygg nýta sér stórar áldósir en það er að verða mjög algengt í Bandaríkjunum, enda mun hentugri umbúðir fyrir bjór en gamla glerið. Athygli skal einnig vakin á fallegri hönnun á miðum Malbyggs en Harpa Kjartansdóttir myndskreytir bjórinn.

Nú á fyrstu vikum sumars er væntanlegur súrbjórinn Ribbit. Hann er léttur sumarbjór með ástaraldin og mangó. Einnig er margt í gerjun eins og t.d. Imperial Stout með kókosbollum. Ofan á það hafa þeir félagar sett ákaflega metnaðarfulla áætlun í gang með tunnuþroskun en þeir voru nýbúnir að setja súrbjór í eikartunnur þegar Vínotek kíkti í heimsókn. Sá bjór verður ekki til fyrr en eftir ár en þetta er ákaflega spennandi hjá Malbygg.

Malbygg er nafn sem verður á vörum margra bjórunnenda á næstu vikum og því full ástæða til að hafa auga með bjórum þeirra á krönum bæjarins eða í ÁTVR.

 

Deila.