Trapiche Gran Medalla Malbec 2015

Trapiche er stærsta og eitt elsta vínhús Argentínu og hefur verið leiðandi á mörgum sviðum þau 130 ár sem það hefur starfað og að mörgu leyti dregið vagninn ásamt hinum risanum, Catena-Zapata, í að koma argentínskum vínum á kortið alþjóðlega á síðustu árum. Eins og gefur að skilja er Malbec-þrúgan áberandi í úrvalinu hjá Trapiche og Gran Medalla er eitt af toppvínunum, þrúgurnar koma frá einni ekru af svæðinu Uco, sunnarlega í Mendoza, sem er með bestu ræktunarsvæðunum.

Litur vínsins er mjög dökkur, svarblár og djúpur. Í nefi rennur dökkur berjaávöxtur, sólber og krækiber saman við sæta eik, krydd og kaffibaunir. Vínið er mjúkt og þykkt og einkennist ekki síst af mjög fínu jafnvægi og góðum tannískum strúktúr. Frábært vín fyrir peninginn. Borgar sig að umhella.

100%

3.499 krónur. Frábær kaup. Meiriháttar Malbec fyrir peninginn. Vín fyrir bestu nautasteikurnar.

  • 10
Deila.