Montecillo Crianza 2015

Það eru orðin 25 ár síðan að Crianza-vínið frá Montecillo var fyrst tekið til umfjöllunar. Þá voru ný Rioja-vín farin að koma inn í vínbúðirnar í kjölfar þess að tekin var upp reynslusala á vínum en ekki fast framboð. Haustið 1994 smökkuðum við því Montecillo í fyrsta skipti, Crianza-vínið var þá kallað Vina Cumbrero, árgangurinn var 1989 og það var með dökkrauðum miða. Það varð fljótt með vinsælustu vínunum á Íslandi.

Rauði liturinn á miðanum tók nokkrum breytingum í gegnum þann aldarfjórðung sem síðan er liðinn og vínið hefur sömuleiðis tekið töluverðum breytingum eins og við fjölluðum m.a. um eftir heimsókn til Rioja fyrir nokkrum árum sem má lesa um hér.

Og það er kannski við hæfi að á þessum tímamótum skulum við sjá einhverjar breytingar á víninu frá upphafi. Sú sem slær mann fyrst er að rauði liturinn á miðanum er horfinn, nú er þrennan Crianza, Reserva og Gran Reserva öll með hvítum flöskumiðum en hulsan á stútnum er hins vegar í mismunandi litum – og enn rauð á  Criönzunni.

Róttækasta breytingin er hins vegar á víninu sjálfu, það hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, er orðið ferskara, ávaxtadrifnara, eikin er mildaðri og fókuseraðri, í stuttu máli vínið er orðið mun nútímalegra. 2015-árgangurinn er einstaklega aðlaðandi, bjartur, dökkur berjaávöxtur, kirsuber út í plómur, eikin mild og vel samofin, vanilla og dökkt súkkulaði. Það er þétt í munni, mjúk og þykk tannín og þægilega ferskt.

90%

2.098 krónur. Frábær kaup, einstaklega gott hlutfall verðs og gæða. Frábært matarvín undir tvö þúsund krónum. Með grilluðu nautakjöti eða lambi.

  • 9
Deila.