Beikonvafinn kjúklingur með kryddjurtafyllingu

Það er hægt að elda kjúkling á marga vegu. Ein leið sem verður þó ekki oft fyrir valinu er að úrbeina kjúklinginn. Auðvitað er það aðeins meira vesen að úrbeina heilan kjúkling en að elda hann heilan eða í bútum en það er líka vel þess virði. Þetta tekur ekki langan tíma, fimm til tíu mínútur ef maður hefur góðan flökunarhníf. Það er hægt að fara nokkrar leiðir og á youtube er að finna fínustu leiðbeiningarmyndbönd um hvernig á að bera sig að.

Mestu skiptir að gera þetta rólega í fyrstu skiptin og passa sig á að skera ekki í gegnum húðina á kjúklingnum þannig að þegar að beinin eru öll farin séum við heillegan kjúkling til að fylla og vefja upp.

Í þessa fyllingu notum við:

  • búnt flatlaufa steinselja
  • 2-3 rósmarínstönglar
  • 4-5 hvitlauksgeirar
  • rifinn börkur af einni sítrónu
  • ólífuolía

Saxið steinseljuna og rósmarínnálarnar. Saxið hvítlaukinn fínt. Blandið kryddjurtunum, hvítlauk og sítrónuberki saman ásamt smá skvettu af ólífuolíu

Þá er komið að því að fylla kjúklinginn. Leggið hann flatan á skurðbretti eða annan vinnuflöt og látið húðina snúa niður. Saltið vel og piprið. Setjið kryddjurtafyllinguna á flatan kjúklinginn og rúllið honum saman í böggul.

Vefjið böggulinn með þykkum beikonsneiðum og bindið hann saman með kjötsnæri.

Okkur finnst best að elda svona kjúkling í Le Creuset-potti eða sambærilegum pottjárnspotti. Byrjið á því að hita olíu og smjör saman í pottinum og brúnið síðan kjúklingaböggulinn á öllum hliðum.

  • Við þurfum líka 1 púrrulauk. Skerið endana af og ystu blöðin og saxið

Bætið nú safanum úr sítrónunni sem að við rifum börkin af út í pottinn og um 1 dl af hvítvíni. Bætið saxaða púrrulauknum saman við og hafið kjúklingaböggulinn ofan á.

Setjið pottinn í 200 gráða heitan ofn. Eldið í um klukkutíma, það er ágætt að hafa lokið á pottinum fyrstu 15-20 mínúturnar.

Takið út og leyfið kjötinu að jafna sig í nokkrar mínútur. Losið snærið af böggulnum og skerið í sneiðar. Púrrulaukurinn er afbragðs meðlæti ásamt sósunni sem hefur myndast í pottinum.

Með þessu er gott að hafa ungt og bragðmikið rauðvín eða hvítvín. Ef rauðvín þá t.d. Cotes-du-Rhone eða Piedmont-vín. Ef hvítvín þá gott Chardonnay-vín.

Deila.