Tommasi setur markið hátt með De Buris

Ítalska vínfjölskyldan Tommasi hefur á undanförnum árum framleitt þau vín sem að Íslendingar eru hvað hrifnastir af samkvæmt sölutölum. Tommasi-vínin hafa raunar ansi sterka stöðu á Norðurlöndum þar sem að appassimento, ripasso og Amarone-vínin þeirra virðast falla einstaklega vel að smekk fólks.

Tommasi hefur ræktað vín allt frá byrjun síðustu aldar þegar Giacomo Battista Tommasi keypti fyrstu ekruna sína í Valpolicella Classico. Fjórða kynslóðin heldur nú utan um reksturinn og hefur heldur betur fært út kvíarnar út fyrir heimahagana í Veneto. Alls ræktar Tommasi nú vín á 550 hektörum víðs vegar um Ítalíu, s.s. í Maremma í Toskana, Púglíu, Basilicata og Lombardíu.

Það er hins vegar í Veneto sem að hjartað slær og alls á nú fjölskyldan um 205 hektara í Veneto, þar af eru rúmlega hundrað hektarar á ekrunum La Groletta, Conca d‘ Oro og Ca‘Florian sem eru á þekktu hæðum héraðsins.

Pierangelo Tommasi var staddur hér á Íslandi á dögunum og kynnti þá nýtt flaggskip vínhússins sem hlotið hefur nafnið De Buris. Það var um aldamótin sem að Tommasi keypti tíu hektara vínekru, La Groletta og jafnframt elsta vínbúgarð eða „chateau“ Valpolicella-svæðisins, Villa de Buris. Ekran er í 300 metra hæð og ákveðið var að sameina þessar tvær fjárfestingar í eina. Í Villa de Buris er verið að innrétta fullkomna víngerð og glæsihótel og hæsta blett ekrunnar, sem er 1,9 hektari, var ákveðið að nota í framleiðslu á nýju ofurvíni sem að hefur hlotið nafnið De Buris. Það var hins vegar ekki fyrr en í fyrra, tæpum tveimur áratugum eftir kaupin á ekrunni sem að vínið leit dagsins ljós og Pierangelo hefur síðan verið á flakki um heiminn að kynna það.

Að sögn Pierangelo vildi fjölskyldan ekki bæta við öðru Amarone við framleiðsluna heldur búa til einstakt vín í lúxusklassa sem gæti keppt við þau allra bestu. 2008 vínið sem hann kynnti er fyrsti árgangur De Buris en 2009, annar árgangurinn af De Buris, er líka kominn út og var fyrst kynntur alþjóðlega um miðjan október.

De Buris er tignarlegt og mikið Amarone-vín, með einstaka dýpt og lengd, og bara nokkuð unglegt þrátt fyrir að vera áratuga gamalt.

Deila.