Sniglar og paella í Tautavel

Cotes de Roussillon er víngerðarsvæði í suðvesturhorni Frakkland undir rótum Pýrenea-fjalla. Þótt þetta svæði sé hluti af hinu stærra héraði Languedoc-Roussillon eru einkenni þess um margt ólík. Hér erum við komin í frönsku Katalóníu og andrúmsloftið minnir um margt meira á þann hluta Spánar en Frakkland.

Þarna má finna einstök styrkt vín, sem eru nefnd vin doux naturel á þessum slóðum og eru þekktustu þorpin Maury, Rivesaltes og Banyuls. Vínin eru framleidd með svipaðri aðferð og portvín, þ.e. er eimuðu víni er blandað saman við vínið áður en það hefur fullgerjast þannig að eftir situr náttúrulegur sykur sem gefur því sætt yfirbragð. Það eru notaðar bæði hvítar og rauðar þrúgur, Grenache og Macabeo eru algengar og stílarnir eru margir, allt eftir því hversu lengi og hvernig vínið hefur verið geymt. Í dag er Tautavel ekki bara þekkt fyrir að vera einn af vöggum siðmenningar heldur einnig fyrir vínin sín og þá ekki síst kröftug og krydduð rauð yfirleitt úr miðjarðarhafsþrúgunum Grenache, Syrah og Carignan.

Eitt af mest heillandi þorpum þessa svæðis er Tautavel, lengst inni í landi sem hefur verið sjálfstætt AOC-svæði frá 1997. Það er um 200 metra yfir sjávarmáli og jarðvegurinn einkennist af graníti og kvartssteini. Þorpið er ekki hvað síst þekkt fyrir að þar fundust fyrir um hálfri öldelstu mannvistarleifar sem fundist hafa í  Evrópu kenndar við Tautavel-manninn eða homo erectus tautavelensis. Þarna hefur því mannkynið og forverar þess verið með búsetu í rúmlega 500 þúsund ár eða svo að minnsta kosti.

Við lentum í mikilli veislu þarna í sumar með vínbændum svæðisins þar sem ekki fór á milli mála að ræturnar eru katalónskar ekki síður en franskar. Á götum þorpsins voru sett upp stór grill þar sem kynt var upp í vínið og sniglar grillaðir og bornir fram á ráðhústorginu. Að því búnu vísaði lúðrasveit vínbænda veginn að veislutjöldum þar sem að borin var fram paella á risastórum pönnum. Lífsgleðin er mikil á þessu svæði og menn kunna að hafa gaman og njóta lífsins, sem leynir sér heldur ekki í vínum svæðisins.

 

Deila.