Ein öflugasta tískubylgja drykkjarheimsins síðustu árin er ginið en allt í einu varð þessi gamalgróni breski drykkur að tískufyrirbæri. Út um allan heim spruttu upp nýir ginframleiðendur og má nefna sem dæmi að fyrir áratug voru tæplega 40 ginhús starfandi í Bretlandi en þau eru nú á annað hundrað. Jafnvel hér á Íslandi spruttu upp margvísleg gin og má nefna Himbrima, Marberg og Vor sem dæmi um þá bylgju.
En ginið á sinn fylgifisk, sem er ekki síður mikilvægur nefnilega Tonic-ið. Upphaflega var Tonic Water notað til að fyrirbyggja malaríu, sem var skæð víða á hitabeltissvæðum breska heimsveldisins, en virka efnið í þeim tilgangi er kínin. Það hefur hins beiskt og ágengt bragð og var því leyst upp í kolsýrðu vatni og sykri – sem sagt Tonic Water. Og á breska Indlandi voru menn í framhaldinu ekki lengi að átta sig á því að það mætti deyfa beiskjuna enn frekar með því að bæta smá gini út í tónikið.
Rétt eins og ginið hefur tónikið þróast og er nú framleitt í margvíslegri mynd. Eitt af tónikunum sem hefur farið hvað mest fyrir er Fever Tree en stofnendur fyrirtækisins vildu mæta auknum áhuga á topp gini með því að bjóða upp á topp tonik í mismunandi útfærslum er henta ólíkum tegundum af gini og ólíkum blöndum.
Fever Tree hafa verið í miklu uppáhaldi hjá okkur um margra ára skeið og því var ánægjulegt að sjá að nú er hægt að panta þessa drykki í nýrri netverslun á fevertree.is auk þess að fást í helstu stórmörkuðum. Þar fást meðal annars tvær af nýjustu bragðtegundunum Fever Tree Lemon Tonic og Fever Tree Spiced Orange Ginger Ale.