Hallveig bloggar: Fylltar kjúklingabringur með döðlum og geitaosti

Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkona færði okkur þessa spennandi uppskrift af kjúklingabringum fylltum með döðlum og geitaosti.

  • 4 kjúklingabringur
  • handfylli ferskar medjool döðlur (má nota þurrkaðar, en gott að leggja í bleyti í smástund)
  • 1 skalottulaukur fremur stór, eða 2 litlir
  • 2 greinar ferskt timian (má sleppa eða nota smávegis af þurrkuðu)
  • 150 gr mjúkur hvítur geitaostur (chévre)
  • 8 sneiðar þunnt beikon
  • 100 ml þurrt hvítvín
  • 200 ml rjómi
  • 1 msk sojasósa
  • Ólífuolía, flögusalt, nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 180°

Skerið skalottulaukinn smátt, takið steininn úr döðlunum og grófsaxið. Hitið smá olíu í litlum potti og mýkið laukinn. Bætið döðlunum og timianinu út í og hitið í nokkrar sekúndur. Takið pottinn af hitanum og bætið ostinum út í í stórum bitum og hrærið þar til allt hefur blandast saman, en er samt fremur þétt í sér.

Takið kjúklingabringurnar og “fiðrildið” þær, þeas skerið þvert í þær á þykka partinum svo þær opnist eins og bók. Saltið og piprið. Fyllið bringurnar með ostagumsinu og lokið, vefjið svo tveimur beikonsneiðum um hverja bringu og festið saman með tannstöngli.

Steikið bringurnar í 1-2 mínútur á hlið upp úr olíu á góðri þykkbotna pönnu sem má fara í ofn. Setjið bringurnar á pönnunni í ofninn og bakið í 15-18 mínútur eftir þykkt, eða þar til kjarnhiti hefur náð 70°. Hafið ekki áhyggjur þó eitthvað af fyllingunni leki út, hún gerir sósuna!

Takið pönnuna úr ofninum, færið bringurnar á fat og haldið heitu með álpappír. Hitið pönnuna upp á hellu, hellið svo hvítvíninu út á og hrærið svo skófirnar blandist við vökvann (deglacer). Setjið að lokum rjómann og sojasósuna út á og leyfið að sjóða aðeins upp þar til rjóminn þykknar. Smakkið svo sósuna til ef þarf, ég bætti t.d. við örlitlu púrtvíni í lokin.

Berið bringurnar fram með sósunni og ykkar uppáhalds meðlæti, með þessu er gott að hafa góðar kartöflur, t.d. kramdar í ofni eða steiktar í andafitu, hrísgrjón gætu líka virkað og jafnvel pasta. Svo er tilvalið að drekka restina af hvítvínsflöskunni með, í þetta sinn var ég með Chardonnay frá Cloudy Bay, gríðargott vín frá vinum okkar “down under”.

 

Deila.