Bandarískt baunasalat með grillmatnum

Baunasalat er vinsæll réttur í suður- og miðríkjum Bandaríkjanna og þykir mörgum ómissandi ekki síst með grillmati sumarsins. Salatið hentar með flestum grillréttum og er þar að auki ljúffengt og einstaklega fljótlegt.

Það sem við þurfum í salatið er:

  • 1 poki frosnar grænar baunir (400 g)
  • 6 sneiðar beikon
  • 1 meðalstór laukur, saxaður
  • 1,5 dl majonnes (eða sýrður rjómi)
  • 1 lúka rifinn Cheddar-ostur
  • salt og pipar

Hellið frosnum baununum í sigti og leyfið að þiðna í hálftíma eða svo. Steikið beikonsneiðarnar þar til þær eru orðnar svolítið stökkar, takið af pönnunni og skerið í litla bita. Saxið laukinn.

Blandið saman majonnesi og beikoni. Saltið og piprið. Blandið lauknum saman við og síðan baununum. Blandið þá ostinum saman við. Það er líka gott að setja litla lúku af söxuðum kryddjurtum saman við ef þið eigið, t.d. myntu eða steinselju.

Geymið í ísskáp eða köldum stað þar til borið er fram.

Deila.