Rósavínin eru sumarvínin

Rósavín hafa löngum verið hluti af hinum suður-evrópska lífstíl, óbrigðull vorboði rétt eins og lóan hér. Neysla þeirra var lengst af minni í norðurhluta Evrópu og Bandaríkjunum, kannski vegna þess að loftslagið er annað. En þetta hefur breyst gífurlega hratt, vinsældir rósavínanna hafa verið með endemum í nágrannaríkjum okkar síðustu árin og við Íslendingar erum sömuleiðis smátt og smátt að taka þessa vorboða upp á okkar arma.

Þekktustu rósavínin koma sem fyrr frá suðurhluta Frakklands þar sem er löng hefð fyrir framleiðslu rósavína, ekki síst í Provence en einnig í Languedoc. Það má raunar finna rósavín frá flestum frönskum héruðum, til dæmis Bordeaux, Sancerre, hin djúplituðu rósavín Tavel-svæðisins í Rhone, hin örlítið sætu rósavín Anjou í Loire og að maður tali nú ekki um rósakampavínin. Sömu sögu er að segja af helstu víngerðarsvæðum Evrópu, ekki síst þeim syðri, rósavínin eru yfirleitt hluti af því mengi sem framleitt er.

Við fjölluðum ítarlega um bleiku byltinguna fyrir nokkrum árum (sem má lesa með því að smella hér) og þróunin hefur verið á sama veg síðan. Bandaríkjamenn hafa margfaldað neyslu sína á rósavínum síðasta áratug og þau eru sú kategória markaðarins sem hefur vaxið hraðar.  Ekki spillir fyrir að heimsþekktar stjörnur á borð við Angelina Jolie, Brad Pitt, Sarah Jessica Parker og Bon Jovi hafa framleitt „sín eigin“ rósavín er fá mikla umfjöllun

Í Frakklandi hafa rósavínin tekið fram úr hvítvínum og er nú ekki síður algeng sjón á skíðasvæðum en við ströndina.

Og jafnvel þótt að rósavínin eigi langt í land hér á landi með að ná sömu vinsældum og í nágrannalöndunum er ljóst að njóta mun meiri hylli en áður. Ef við berum saman sölutölur árið 2010 og 2019 sést þannig að sala á rósavínum hefur fjórfaldast á þessum tæpa áratug. Þau eru ennþá brot af sölu hvítvína og rauðvína en þetta engu að síður greinilegt trend.

Hér tökum við saman umfjöllun um rósavín sem eru í sölu sumarið 2020 og bætist í eftir því sem að við smökkum fleiri. 

 

Deila.