Borðað um landið

Sumarið 2020 er sumarið sem að við ferðuðumst öll innanlands og það hefur líklega aldrei verið eins þægilegt. Íslensk náttúra hefur auðvitað alltaf verið eins stórfengleg og hún er í dag. Sú mikla breyting sem hefur átt sér stað til batnaðar eru hins vegar ferðaþjónustuinnviðirnir sem hafa byggst upp síðasta áratug samhliða vexti ferðaþjónustunnar. Það þarf ekki lengur að borða í vegasjoppum og gista á gömlum heimavistum. Hvert sem komið er má finna sjarmerandi og oft frábæra gistingu og spennandi veitingahús.

Á nýlegum rúnti um Vestfirði tókum við púlsinn á nokkrum stöðum, sumum þeirra góðkunningjum, öðrum sem prófaðir voru í fyrsta skipti. Þó að við höfum fjallað áður um Simbahöllina á Þingeyri þá er ekki hægt að fjalla um Vestfirði án þess að minnast á hana. Það er eiginlega skylda að stopp þar og fá sér eitthvert besta kaffi á Vestfjörðum og örugglega bestu belgísku vöfflur landsins. Staður með stórt hjarta og hlýlega sál.

Sígildur góðkunningi er Tjöruhúsið á Ísafirði en á fáum stöðum á Íslandi og líklega í heiminum er betra að borða fisk. Hann er auðvitað eins ferskur og hann verður, keyptur nýr á markaðnum daglega, yfirleitt steinbítur og þorskur, við vorum svo heppin að fá kola líka þennan dag. Það er ekkert nýjabrum og engin nýsköpun í matreiðslunni, bara pönnusteiktur fiskur þar sem ekki er verið að spara smjör og stundum rjóma og fjölbreytt og bragðgott meðlæti. Það er líka oft þétt setið á langborðunum í Tjöruhúsinu og þessa vikuna voru flest kvöldin uppbókuð, langir biðlistar og hádegin umsetin líka. Mikið til Íslendingar en það var örugglega fjórðungur gesta erlendir ferðamenn.

Annar huggulegur staður á Ísafirði er Húsið í fallegu timburhúsi við Hafnarstræti. Á matseðlinum er hægt að finna eitthvað fyrir alla, alveg ágætis hamborgara en hvað besta reynslan hefur verið af því að fá fisk dagsins. Þarna er líka fínt að stoppa til að fá sér kaffi og heimabakaða köku, yfirleitt mikið líf í Húsinu frá því það opnar fyrir hádegi og fram á kvöld.

Og við verðum líka að nefna Heimabyggð sem er sjarmatröllið í ísfirsku flórunni. Krúttlegt hipstera-kaffihús sem opnaði síðasta vetur, nokkrum húsum frá Gamla bakaríinu. Stemmningin er afslöppuð, heimilisleg, súrdeigsbrauðið frábært og súpan sem við fengum sömuleiðis. Gott úrval er af kaffi og bjór og kökum og bökum.

Á Flateyri getur verði ansi líflegt. Lýðháskólinn hefur hleypt lífi í bæinn og það fer ekki fram hjá manni að mikið af listafólki, ekki síst úr kvikmyndageiranum hefur þarna aðsetur hluta úr ári. Vagninn á Flateyri hefur boðið upp á veitingar lengur en elstu menn muna og í sumar hefur verið þar nokkuð um „pop-up“, til dæmis hafa  Sono-matseljurnar Silla Knudsen og Hildigunnur Einarsdóttir nokkrum sinnum töfrað fram grænmetis- og veganrétti úr gnægtarkistu Önundarfjarðar. Öllu hefðbundnari er matreiðslan á Bryggjukaffi við höfnina en maður veit að það er eitthvað í gangi þegar að maður sér heimamenn koma með stóra potta til að sækja sér sjávarréttasúpuna sem „take-away“, það er eiginlega skylda á Vestfjörðum að koma þar við og smakka á henni, bragðmikilli, fiskmikilli og ekki verið að sýna feimni í kryddnotkun.

Fínasta fiskisúpa var líka í boði á Café Riis í þeim fallega bæ Hólmavík. Þar var erfitt að velja um hvort snæða ætti á Riis eða Restaurant Galdri en að þessu sinni varð Riis fyrir valinu. Súpan var bragðmikil, soðin upp með kókosmjólk en það sem staðurinn stendur kannski helst fyrir eru frábærar pizzur, sem hvaða veitingahús á landinu gæti verið stolt af að bera fram.

En það er ekki bara á Vestfjörðum sem að við höfum fengið góðan mat á síðustu mánuðum. Uppbygging ferðaþjónustu við Mývatn hefur verið öflug á síðustu árum, þar eru komin frábær hótel og nokkur ansi góð veitingahús. Það er til dæmis upplifun að snæða í Vogafjósi, þar sem er bókstaflega borðað inni í fjósi, þó vissulega séu beljurnar skermaðar af með veggjum og gluggum. Vogafjós, sem er aðili að Beint frá býli og Þingeyska matarbúrinu, býður upp á mikið af eigin afurðum, s.s.silung, hangikjöt og hverabrauð. Það er líka óhætt að mæla eindregið með lambaskankanum, hægelduðum og bragðmiklum.

Á Austurlandi eru líka spennandi hlutir að gerast og einhver eftirminnilegasti staðurinn þar sem við höfum heimsótt á síðustu mánuðum er Nielsen á Egilsstöðum, sem starfræktur er af ungum hjónum, Sólveig Eddu Bjarnadóttur og Kára Þorsteinssonar,  í elsta húsi bæjarins. Kári var áður yfirkokkur á Dill og í tveimur heimsóknum þangað hefur matargerðin verið skemmtileg blanda af framsækni og hinu hefðbundna, ávallt með áherslu á staðbundin, vönduð hráefni. Yfirleitt er vínúrval á veitingahúsum utan Reykjavíkur ekki upp á marga fiska (undantekningar þó eins og á Akureyri) en þarna voru virkilega fínar flöskur inn á milli á alveg þokkalegu verði.

 

Deila.