Louis Jadot Beaujolais Villages 2019

Vínekrur Beaujolais taka við af þeim í Búrgund þegar komið er suður fyrir borgina Macon og teygja þær sig langleiðina niður að Lyon. Þarna verða líka „þrúguskipti“, í stað ræktunar á Pinot Noir fyrir rauðvínin tekur Gamay-þrúgan við í Beaujolais. Beaujolais vínin geta verið alveg hreint unaðsleg, létt, björt og leikandi og best eru vínin af tíu svæðum sem skilgreind eru sem „cru de Beaujolais“ og bera nöfn þorpanna sem þau eru við. Milliflokkurinn í lagskiptingu Beaujolais-vínanna eru vín sem flokkuð eru sem Beaujolais Villages og koma af undirsvæðum sem talin eru í betri kantinum. Louis Jadot er eitt af stóru (og virtu) négociant-húsunum í Búrgund og auk Búrgundarvína gerir húsið einnig Beaujolais-vín.

Þetta er afskaplega sjarmerandi Beaujolais Villages, fagurrautt með ljúfri angan af þroskuðum hindberjum og jarðarberjum, út í kirsuber. Það er ungt og bjart, ávöxturinn ferskur og lifandi en vínið hefur líka fínan strúktur, með fínni sýru og tannínum sem halda því uppi og keyra áfram. Mjúkt ferskt og smá piprað í munni.

80%

2.895 krónur. Frábær kaup. Með ostum, köldum réttum, s.s .skinku og pylsum, ofnelduðum kjúklingi.

  • 8
Deila.