Domaine de Valmoissine Pinot Noir 2017

Var í Provence við Miðjarðarhafsströnd Frakklands er með allra elstu víngerðarsvæðum landsins. Þetta svæði er þekktast fyrir rósavín og því margir sem klóruðu sér í hausnum þegar að Búrgundarhúsið Louis Latour festi kaup á ekrum í kringum gamalt munkaklaustur skammt frá St. Tropez fyrir rúmum þremur áratugum með því yfirlýsta markmiði að framleiða vín úr Búrgundarþrúgunni Pinot Noir.  Ekrur Domaine de Valmoissine eru hins vegar í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli og þarna kom í ljós að fínustu aðstæður voru til staðar fyrir Pinot. Domaine de Valmoissine 2017 er flottur Pinot á góðu verði, ávöxturinn heitair og sólbakaðri en í Búrgund án þess þó að fara yfir í Nýjaheimsstílinn. Liturinn er djúprauður, þykkur berjakeimur í nefi, hindber, út í kirsuber, kryddað, jörð, áferðin er mjúk og þykk, tannín póleruð og þægileg, vínið er balanserað, langt og hefur fína dýpt í bragðinu.

80%

2.799 krónur. Frábær kaup. Með kalkún eða önd.

  • 8
Deila.