Chateau d’Agassac 2018

Árgangurinn 2018 var frábær í Bordeaux þó svo að útlitið hafi ekki vorið gott í upphafi, miklar rigningar um vor og fram á byrjun sumars. Úr þessu rættist hins vegar með miklum hita í ágúst fram í október sem hjá flestum húsum tryggði fyrsta flokks fullþroska þrúgur í hús.

Chateau d‘Agassac er einstaklega heillandi lítið Chateau á svæðinu Haut-Médoc í Bordeaux rétt norður af borginni sjálfri. Þó að það sé ekki inni á „stóru“ svæðunum í Médoc þá gefur þetta vín þó mörgum „stærri“ vínum lítið eftir fyrir einungis brot af verðinu. Eigandinn Jean-Luc Zell hefur lagt mikinn metnað í að þróa Agassac áfram á síðasta áratug og það er svo sannarlega að skila sér í stöðugt betra víni – sem var þó gott fyrir.

Þetta er fangagóður Agassac. Dimmrauður út í fjólublátt. Liturinn enn ungur, dökkur og þéttur. Í alla staði klassískur ungur Médoc með þykkum sólberjaávexti, sedrusvið og tóbakslaufum. Ávöxtur og eik í fullkomnu jafnvægi, tannín mjúk og þétt, og það hefur alla burði til að eldast vel.

90%

4.599 krónur. Frábær kaup. Hörku Bordeaux-vín fyrir peninginn. Með hreindýri, með önd, með nauti.

  • 9
Deila.