Planeta Chardonnay 2019

Planeta-fjölskyldan á Sikiley hefur átt ríkan þátt í því að koma Sikiley aftur á alþjóðlega vínkortið. Vínrækt á sér lengri sögu á eyjunni en víðast hvar annars staðar, Grikkir komu þangað með þróaða víngerð löngu fyrir tíma Rómverja. Í seinni tíð hefur Sikiley hins vegar fyrst og fremst framleitt einföld borð (í gífurlegu magni) og grunnvín fyrir framleiðslu á styrktum vínum á borð við Marsala. Þetta hefur þó verið að breytast á síðustu áratugum ekki síst fyrir tilstilli vínhúsa á borð við Planeta. Enda eru tækifærin mikil, aðstæður til vínræktar eru afbragðsgóðar og fjölbreyttar og þarna má líka finna góðar innfæddar þrúgur, jafnt hvítar sem rauðar.

Planeta Chardonnay er hins vegar vínið sem sýndi heiminum fram á að Sikiley gæti framleitt vín úr þekktu frönsku þrúgunum sem stæðust þeim bestu snúning. Þegar Planeta-fjölskyldan byrjaði að gróðursetja vínvið á vesturhluta Sikileyjar árið 1985 var áherslan á klassískar franskar þrúgur þar sem fjölskyldan taldi að þannig væri auðveldara að ná til alþjóðlegra vínneytenda í fyrstu. Smám saman urðu sikileysku þrúgurnar fyrirferðarmeiri í vínum Planeta en Chardonnay-vínið, sem segja má að hafi komið vínhúsinu á kortið á sínum tíma,  stendur enn fyrir sínu.

Vínið er gullið á lit, liturinn djúpur og þykkur. Í nefinu feitur og þykkur, þurrkaður ávöxtur, apríkósur, sítrus, smjörkennt með áberandi ristaðri eik, stíllinn svolítið í ætt við stóru hvítu Kaliforníuvínin eins og þau voru. Vínið er mikið um sig án þess að verða þungt, hefur næga sýru til að halda ferskleika og milda, þægilega seltu í lokin.

100%

4.912 krónur. Frábær kaup. Með humar, ræður vel við fisk í rjómasósu eða jafnvel ljóst kjöt.

  • 10
Deila.