Ramos Pinto Duas Quintas Reserva 2019

Douro-dalurinn í Portúgal er að verða einhver mest spennandi uppspretta rauðvína eftir því sem fleiri vínhús, sem lengst af einbeitt sér að framleiðslu portvína, beina kröftum sínum í auknum mæli einnig í framleiðslu rauðvína. Þau eru yfirleitt þegar góð og oft jafnvel frábær, þó svo að verðmiðinn sé langt frá því sem búast má við fyrir sambærileg gæði á öðrum vínræktarsvæðum Evrópu.

Duas Quintas frá vínhúsinu Ramos Pinto er dæmi um þetta. Það er gert úr hefðbundnum portvínsþrúgum (Touriga Nacional og Tourica Francesa) sem ræktaðar eru á tveimur búgörðum í Douro í eigu Ramos Pinto. Vínið er massað, dökkt og dimmt, svarfjólublátt á lit með þykkum, heitum og krydduðum svörtum ávexti í nefi, krækiberjum og bláberjum, en einnig sætum. þroskuðum kirsuberjum. Það er kryddað, dökkt súkkulaði, anís og einnig nokkuð míneralískt. Í munni er ávöxturinn þroskaður, allt að því sultaður, vínið er þykkt og kröftugt en það hefur einnig ferska sýru sem lyftir því upp og kröftug tannín sem halda því uppi. Frábært vín sem alveg má geyma í einhver ár en hefur gott af umhellingu ef opnað núna. Vín fyrir bragðmikið kjöt, vel hangið nautakjöt eða villibráð. Þurra, bragðmikla osta.

100%

6.580 krónur. Frábær kaup. Magnað og mikið rauðvín frá Douro-dalnum.

  • 10
Deila.