Lífrænt ræktuð vín hafa fyrir löngu fest sig í sessi en það eru all nokkrir vínræktendur sem vilja ganga skrefinu lengra og hafa tekið upp svokallaða bíódýnamíska eða lífeflda vínrækt. Í Þeim hópi eru nokkur af þekktustu vínhúsum Bordeaux s.s. Chateau Palmer, Climens, Pontet-Canet og Durfort-Vivens en líka kampavínshús á borð við Louis Roederer. Fá vínhús hafa hins vegar tekið bíódýnamíkina eins langt og Gerard Bertrand en vínræktin á öllum „domaine“ húsum hans sem eru sautján talsins er nú bæði lífræn og bíódýnamísk.
En hver skyldi munurinn á lífrænni og lifefldri/bíódýnamískri ræktun vera í raun? Í stuttu máli má segja að um sé að ræða töluvert ólíka nálgun. Á meðan lífræn ræktun felur fyrst og fremst í sér takmörkun á notkun aukaefna þá er bíódýnamíkin meira heildstæð hugmyndafræði, að hluta til vísindaleg, að hluta til heimspekileg.
Allt hófst þetta með austurrískum dulspekingi að nafni Rudolf Steiner en hann setti fram kenningu sína fyrir einni öld, árið 1924. Steiner hafði numið fjölmörg fög, jafnt náttúruvísindi og stærðfræði sem heimspeki og heillaðist ungur af kenningum Goehtes um hina heildstæðu nálgun vísinda og lista. Kenningar Steiners leiddu til stofnun Waldorf-skólanna en einnig nýrrar nálgunar í landbúnaði þar sem horft er til þess að ná samhljómi hinna andlegu afla sem er að finna í náttúrunni. Hugmyndakerfi Steiners var sett fram í átta fyrirlestrum er hann flutti árið 1924 að beiðni hóps bænda sem hafði miklar áhyggjur af aukinni notkun iðnaðaráburðs og margvíslegra efna í landbúnaði. Steiner lagði áherslu á þætti á borð við jurtablöndur, komposteringu og samspil við himintunglin, landbúnaður ætti að styðja við náttúruna og efla en ekki brjóta hana niður. Áhyggjur bænda á þessum tíma þegar iðnaðarlandbúnaður var að taka sín fyrstu skref voru ekki síst ummerki um að frjósemi jarðvegs og búfénaðar væri farin að dvína vegna notkun aukaefna. Í einfaldaðri mynd má segja að bíódýnamíkin horfi á vínekru ekki einungis sem eitt vistkerfi heldur eina sjálfbæra lífveru þar sem hægt er að nýta hluti af einum stað til að næra kerfið á öðrum.
Chateau Clos d’Ora
Kenningar Steiners náðu töluverðri fótfestu í Austurríki og þar er um 3% af allri vínrækt bíódýnamísk. Einstaka vínbændur annars staðar í heiminum tóku einnig upp þetta kenningarkerfi en það er ekki fyrr en á síðustu tveimur til þremur áratugum sem það fer að verða verulega útbreitt.
Gerard Bertrand kynntist fyrst kenningum Steiners upp úr aldamótum og ákvað fljótlega að taka upp bíódýnamíska rækt á einu af meginvínhúsum sínum, Chateau Cigalus. Fyrsta tilraunin byggðist á því að taka upp bíódýnamíu á hluta af einni ekru en vera með lífræna ræktun á hinum hlutan. Að ári liðnu taldi Bertrand sig ekki finna verulegan mun á þrúgunum innan ekrunnar. Hann ákvað hins vegar að hætta ekki tilrauninni heldur taka upp heildstæða nálgun og breyta allri ræktun á ekrunni. Breytingarnar á gæðum næstu 2-3 árin voru verulegar og smám saman færði hann út kvíarnar til annarra vínhúsa sinna og er nú í dag orðin umfangsmesti bíódýnamíski vínræktandi veraldar þar sem um þúsund hektararar eru undir á alls sautján víngörðum (domaines).
„Meginmunurinn sem við sjáum er í hvernig bíódýnamíska ræktunin dregur betur fram terroir eða einkenni hverrar ekru,“ segir Guillaume Barraud, sem hefur heildarumsjón yfir hinni bíódýnamísku rækt á öllum sautján víngörðunum. „Vínviðurinn hefur líka meira viðnámsþol þegar kemur að loftslagsbreytingum, hann á auðveldara með að laga sig að þeim.“
En hvað er það sem skiptir mestu máli? Barraud segir grunninn vera í dagatali bíódýnamíunnar þar sem byggt er á samspili jarðar og tunglsins. Hreyfing tungslins hefur áhrif á flóðkrafta jarðar, flóð og fjöru og hefur mikil áhrif landbúnað með áhrifum sínum á gróður. Tunglstaðan gefi vísbendingar um hvenær best sé að framkvæma tilteknar aðgerðir, s.s. sáningu, að gefa áburð eða hefja uppskeru.
Barraud með jurtablöndu og horn
Sumt í bíódýnamíunni kemur manni óneitanlega spánskt fyrir sjónir. Barraud segir teymi sitt fara upp í Pýrenafjöllin að hausti til að safna taði sem síðan er troðið í nautgripahorn. Hornin eru grafin niður, eitt á hektara og tekin aftur upp að vori. Yfir veturinn hafi þau sogað í sig kosmíska orku og rannsóknir sýni að örverum hafi fjölgað verulega sem styrki jarðveginn. Þá eru útbúnar margs konar jurtablöndur, aðallega úr blómum, sem hafa ólíkan tilgang. Þær eru þurrkaðar og muldar, blandað saman við vatn og spreyjað yfir ekrurnar. Ein blandan vinnur gegn myglumyndun, önnur örvar vínviðinn, enn ein hjálpar honum í gegnum mestu þurrkana og svo framvegis.
Bíódínamísku aðferðirnar eru langt í frá óumdeildar og skiptar skoðanir á því hversu langt sé skynsamlegt að ganga í þessum efnum. Forystumenn á borð við Bertrand og fleiri eru algjörlega sannfærðir um að þessi nálgun skili heilbrigðari vínekrum og betri vínum, aðrir segja skorta vísindalegar sannanir fyrir slíku. Þegar upp er staðið er niðurstaðan kannski sú að það að beita sem náttúrulegustum og sjálfbærustum aðferðum við framleiðslu matvæla skili þegar upp er staðið betri afurðum.