Vínhéraðið Franken er við ána Main, þar sem hún rennur inn í Bæjaraland. Eitt helsta sérkenni vínanna eru hinar einstöku flöskur eða Bocksbeutel, sem munkar hófu að nota á miðöldum. Segir sagan að þetta flöskulag hafi verið valið þar sem það hentaði betur í pokann hjá þeim. Hægt er að kynna sér Franken betur í þessari grein hér sem við tókum saman á sínum tíma eftir heimsókn þangað.
Bűrgerspital eða Borgarspítalinn er vínhús með 700 ára sögu og 120 hektara af vínekrum, þar á meðal á nokkrum af þekktustu svæðum Franken. Það eru þrjár aldir síðan að vínhúsið byrjaði að nota Bocksbeutel flöskur og þær eru enn notaðar undir betri vín hússins. Bűrgerspital er í hópi þýskra vínhúsa sem á sínum tíma mynduðu samtökin VDP eða Verband Deutscher Prädikatsveingűter sem hafa tekið upp sína eigin gæðaskilgreiningu þar sem “Gutswein” er grunnflokkurinn, þar næst koma “Ortswein”, síðan “Erste Lage” en “Grosse Lage” toppurinn í gæðum, eins konar “grand cru”.
Hvítvínið Wűrsburger Pfaffenberg er flokkað sem Erste Lage og er ekran Pfaffenberg elsta Silvaner-ekra hússins (vínviðurinn rúmlega hálfrar aldar gamall).
Vínið er fagurgult og angan þess margslungin, framarlega mætir manni þroskaður og sætur sítrusávöxtur, appelsínubörkur og sítróna, þarna eru líka suðrænni ávextir eins og ástaraldin í bland við hunang, kryddjurtir, það er ferskara í munniog léttara á fæti en nefið gefur til kynna, míneralískt með seltu í lokin.
3464 krónur. Frábær kaup, heillandi og margslungið þýskt hvítvín sem er ljúffengt eitt og sér og hentar með margvíslegum sjávarréttum og jafnvel hvítu kjöti og ostum.
-
9