Papari Valley er að finna á einu þekktasta víngerðarsvæði Georgíu, Kakheti, og víngerð hússins er um margt einstök. Öll ræktun hefur verið lífræn í áratug og víngerjunin styðst við náttúruleg ger sem myndast á þrúguhýðinu. Það er hins vegar í víngerðinni sjálfri sem húsið sker sig frá flestum öðrum. Stuðst er við hina fornu qvevri-víngerðarhefð Georgíu þar sem víngerjunin er í stórum leirkerjum. Hjá Papari Valley eru þau hins vegar á stöllum, þar sem vínið byrjar í keri 1 á efsta stalli þar sem sjálf víngerjunin fer fram og heldur síðan þroskaferli sínu áfram og endar í fimmta og neðsta kerinu áður en því er tappað á flösku.
5 Qvevr er rauðvín úr Saperavi-þrúgunni sem er meginþrúga þeirra Georgíumanna. Þrúgan er mjög dökk (meira að segja ávaxtakjötið) og vínin eftir því. Keravínin eru yfirleitt kröftug og mikil og þetta vín er þar engin undantekning, liturinn er dimmur og hyldjúpur, krækiberja og bláberjasafi, sveskjur í nefinu, ágengt og tannínríkt í munni, ávöxturinn þéttur, djúpur, sýruríkt og ferskt. Áfengismagnið heil 15,5%.
Þið getið svo fræðst betur um georgíska vínrækt með því að smella hér.
4.950 krónur, við höfum notið góðs af vaxandi úrvali georgískra vína undanfarið og þetta er eitt besta rauða keravínið sem við höfum séð í vínbúðinni. Frábær kaup en gefið víninu góðan tíma til að opna sig.
-
10